Raunveruleg hætta á annarri árás

Rannsókn er hafin á líkamsárás sem 14 ára drengur varð …
Rannsókn er hafin á líkamsárás sem 14 ára drengur varð fyrir í Langholtshverfi. mbl.is/Þórður

„Við erum komnir með ágætisupplýsingar og vísbendingar og nú þurfum við að ræða við alla,“ segir Guðmundur Pétur Guðmundsson, fulltrúi hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, um mál 14 ára drengs sem varð fyrir líkamsárás í Langholtshverfi fyrir rúmri viku. Samkvæmt drengnum sjálfum og vitnum var honum haldið niðri með hálstaki á meðan nokkrir drengir kýldu hann í bak og höfuð en talið er að allt að 30 til 40 krakkar hafi verið í fylgdarliði þeirra. Rannsókn er hafin á málinu og er það rannsakað sem líkamsárás, að sögn Guðmundar.

Frétt mbl.is: Ráðist á 14 ára dreng í Langholtshverfi

María Sólveig Magnúsdóttir, móðir drengsins, sagði í samtali við mbl.is í síðustu viku að árásin hefði ekki haft að sér neinn aðdraganda, hún hefði verið algjörlega tilefnislaus. María telur að um jafnaldra sonar hennar hafi verið að ræða, en sjálfur gat hann ekki borið kennsl á nema nokkra úr hópnum. Í febrúar varð hann fyrir árás af hálfu sömu aðila, þá fyrir utan skólann sem hann gengur í.

María segir þau ætli að leggja fram kæru vegna málsins á morgun og þá verður tekin skýrsla af syni hennar, en Guðmundur segir kæru styrkja rannsókn málsins.

María segir son sinn vilja fá að vera í friði, …
María segir son sinn vilja fá að vera í friði, en hann óttast að vera á ferli í hverfinu. Aðsend mynd

„Þetta mál, og fréttir af því, hefur vakið mikla athygli í hverfinu og annars staðar,“ segir María og bætir við að það hafi í raun ekki verið friður í hverfinu síðustu daga. „Það er setið um hann hvar sem hann fer og hann er orðinn þekktur í unglingaheiminum. Það er eitthvað sem hann er ekki mjög hrifinn af. Hann vill bara fá að vera friði og helst komast upp í sveit. Það er enn þá raunveruleg hætta á því að ráðist verði á hann aftur. Þegar hann fer út með vinum sínum er honum fylgt heim. Svo er hann að vinna í hverfinu en við höfum verið að keyra hann og sækja í vinnu. Hann er hættur að fara einn út með hundinn okkar á kvöldin. Þetta er ekki bara kvíði, heldur raunveruleg hætta. Þessir aðilar eru að sjást hérna í hverfinu. Þetta er algjört ófremdarástand,“ segir María en sonur hennar hefur fengið bæði sálfræðiaðstoð og áfallahjálp eftir árásina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert