Aldrei fleiri grunaðir um akstur undir áhrifum

Akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna hefur aukist.
Akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna hefur aukist. mbl.is/Júlíus

Í apríl voru skráð 144 brot þar sem ökumaður var grunaður um akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna og 105 brot þar sem ökumaður var grunaður um ölvun við akstur. 

Samkvæmt afbrotatölfræði lög­regl­unn­ar á höfuðborg­ar­svæðinu hafa ekki verið skráð jafn mörg brot vegna aksturs undir áhrifum ávana- og fíkniefna eftir að ný lög tóku gildi árið 2006. Nýju lögin höfðu í för með sér að verklag lögreglu breyttist í þessum málum.

Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu bárust 655 tilkynningar um hegningarlagabrot í apríl. Af hegningarlagabrotum fækkaði þjófnuðum, ofbeldisbrotum gagnvart lögreglumönnum og kynferðisbrotum miðað við meðalfjölda síðustu sex mánuði á undan.

Fíkniefnabrotum og umferðarlagabrotum fjölgaði hins vegar nokkuð. Sérstaklega fjölgaði brotum þar sem ökumenn voru grunaðir um akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna, sem skýrir fjölgun fíkniefnabrota að einhverju leiti.

Að sama skapi þarf að leita aftur til nóvember 2008 til að finna fleiri ölvunarakstursbrot en skráð voru í apríl síðastliðnum segir í skýrslu lögreglunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert