„Ég var gerður að spunameistara“

Fundur stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar hófst á framsögu Ólafs Ólafssonar þar sem hann gerði grein fyrir máli sínu og því sem hann segir vera nýjar upplýsingar. Ólafur kom á fundinn að eigin ósk.

„Ég skil að fólk hafi komist í uppnám vegna skýrslunnar þar sem ég var gerður að spunameistara allra stærstu blekkingar síðustu áratuga. En ég bið fólk um að setja sig í þau spor að það er verið að fjalla um fimmtán ára gamalt mál,“ sagði Ólafur í upphafi framsögunnar. Hann sagðist því ekki geta munað allt sem gerðist á þessum tíma.

Þá minntist Ólafur á gagnapakkann, um 100 blaðsíður sem hann sendi nefndinni seint í gær. „Ég er sá sem hefur verið gagrýndur hvað harðast í skýrslunni, ég biðst forláts á að hafa sent ykkur allan þennan gagnapakka.“

Jón Steindór Valdimarsson, framsögumaður nefndarinnar, segir að gögnin séu að mestu leyti gögn sem voru opinber og nefndinni aðgengileg. Allt gögn sem nefndin hafi séð áður og því ekki ný af nálinni. „Ég átti von á þvi að ég fengi önnur gögn sem myndu varpa skýrara ljósi á atburðarrásina.“

 Jón Steindór segir að í gagnapakkanum séu sex ný skjöl. Þar á meðal tölvupóstur til starfsmanns einkavæðinganefndar frá hagsmunaðila í málinu, þar sem hann er spurður hvort hann geti staðfest ákveðin atriði sem komu fram á fundi fyrir 14 árum. Hann spyr hvort hægt sé að treysta á minni þess manns. Þá voru þar skjöl á ensku og frönsku sem Jón Steindór gat ekki séð að hefðu nokkra þýðingu fyrir málið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert