Snemmt en ekki fordæmalaust

Myndin er tekin í Kópavogi um síðustu helgi.
Myndin er tekin í Kópavogi um síðustu helgi. mbl.is/Hjörtur

„Þetta er í fyrra fallinu en það eru fordæmi fyrir þessu. Síðan verður meira um þetta þegar fer að nálgast mánaðarmótin,“ segir dr. Guðmundur A. Guðmundsson, dýravistfræðingur hjá Náttúrustofnun Íslands, í samtali við mbl.is en gæsaungar eru farnir að klekjast út á höfuðborgarsvæðinu eins og meðfylgjandi mynd ber með sér.

Spurður hvernig sambúð gæsanna, sem eru grágæsir, hafi gengið við mannfólkið á höfuðborgarsvæðinu segir Guðmundur að það hafi gengið nokkuð vel. Eitthvað hafi verið um það að ekið hafi verið á þær í gegnum tíðina en ekki mikið. Gæsir hafi farið að hafa vetursetu á höfuðborgarsvæðinu í kringum 1980 en áður verið eingöngu farfuglar.

„Þær eru orðnar ansi vanar umferð til dæmis enda gjarnan að éta á umferðareyjum. Þær dafna ágætlega og þeim fjölgar þessum borgarfuglum og eitthvað af þeim fuglum sem verið hafa á Reykjavíkurtjörn hafa farið annað þannig að þetta er ekki alveg lokaður stofn. En þessum vetrarfuglum fjölgar ár frá ári,“ segir Guðmundur ennfremur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert