Flokksþing Framsóknar í janúar

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins.
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Samþykkt var að halda flokksþing Framsóknarflokksins í janúar á vor­fundi miðstjórn­ar Fram­sókn­ar­flokks­ins í dag. Ályktun þess efnis var samþykkt samhljóða á fundinum. Hins vegar tekur haustfundur Framsóknarflokksins endanlega ákvörðun um hvenær flokksþingið fer fram. 

Í ályktuninni er kveðið á um að flokksþingið verði haldið fyrri hluta janúar 2018. Flokksþing er haldið annað hvert ár og það var síðast haldið í október í fyrra.

„Tilfinningaríkur“ fundur Framsóknarflokksins 

„Þetta var mikill fundur og vettvangur fyrir okkur að tala saman hvert við annað. Fjarri augum fjölmiðla. Fundurinn var þar af leiðandi hreinskiptur og tilfinningaríkur. Eins og ég sagði í ræðu minni hefði ég fullan skilning á því að margir væru sárir eftir flokksþingið í haust og það tæki tíma að heila þau sár,“ sagði Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins.  

„Ég mun ekki staðfesta það enda er þetta lokaður fundur fjölmiðlum,“ segir hann aðspurður hvort rúmlega helmingur þeirra sem stigu upp í almennum umræðum hefðu lýst yfir vantrausti á hann. Hann bætti við: „Menn ræddu ýmislegt opinskátt.“

Samkvæmt heimildum mbl.is sagði Lilja Alfreðsdóttir, fyrrverandi utanríkisráðherra, á fundinum að hún væri tilbúin að vera formaður flokksins. Inntur svara eftir því sagðist Sigurður Ingi ekki tjá sig um efni fundarins við fjölmiðla. 

Sama svar fékkst þegar hann var spurður hvort Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins, hefði verið ósáttur við að fá tvær mínútur til að tala á þinginu. Á endanum var samþykkt að hann fengi fimm mínútur, samkvæmt heimildum mbl.is. 

Vorfundur miðstjórnar Framsóknarflokksins. Lilja Dögg Alfreðsdóttir og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson …
Vorfundur miðstjórnar Framsóknarflokksins. Lilja Dögg Alfreðsdóttir og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson ræðast við. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert