Hreyfivikan með mikilli ákefð

Allir geta skráð sig til leiks og hrifið aðra með …
Allir geta skráð sig til leiks og hrifið aðra með sér í hreyfingu, segir Sabína Steinunn Halldórsdóttir. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

„Hjartslátturinn þarf að verða aðeins hraðari og lungun að fyllast af súrefni. Ráðlagður dagskammtur í allri hreyfingu er hálftími á dag fyrir fullorðna og börnin þurfa klukkutíma í æfingum sem þau taka af mikilli ákefð,“ segir Sabína Steinunn Halldórsdóttir.

Hún er í forsvari Ungmennafélags Íslands, sem stendur fyrir hreyfiviku sem verður dagana 29. maí til 4. júní. Þetta er hluti af evrópskri lýðheilsuherferð samtakanna ISCA (International sport and culture association) sem UMFÍ er í samstarfi við.

42 þúsund þátttakendur í fyrra

Hvatning til fólks um að hreyfa sig hefur beint og óbeint frá fyrstu tíð verið eitt af meginstefjunum í starfi ungmennafélaganna. Það er líka verk að vinna. Athuganir hafa leitt í ljós að einungis þriðji hver Evrópubúi hreyfir sig nóg. Úr því vilja margir bæta með tilliti til forvarna, líkamlegrar og andlegrar heilsu.

„Hreyfivikan er þannig að hver og einn finnur hvað hentar honum best og heldur af stað. Það geta allir verið boðberar hreyfingar, eins og við köllum það, skráð sig til leiks og hrifið aðra með sér í hreyfingu,“ segir Sabína. Hún segir þar mikilvægt að fólk stimpli sig inn á vefnum hreyfivika.is og veki athygli á sínum viðburði svo aðrir geti verið með. Með því móti er hægt að fylgjast með fjöldi þátttakenda, hvaða sport er vinsælast og sjá samanburð út frá ýmsum forsendum svo sem milli hópa, íþróttafélaga, byggðarlaga og hvernig Ísland stendur í samanburði við hin 37 þátttökulöndin í þessu lýðheilsuverkefni. „Við Íslendingar höfum tekið þátt síðan 2012 og í fyrra varð sprenging í fjölda þátttakenda, sem þá urðu alls 42 þúsund. Viðburðirnir þá urðu 480 og verða vonandi fleiri í ár,“ segir Sabína.

Landsbyggðin kemur sterk inn

Landsbyggðin kemur sterk inn í Hreyfivikunni. Af því sem þar er á döfinni má nefna að Bláskógaskóli að Laugarvatni býður áhugasömum í göngu um fjöll og firnindi. Þrjár mismunandi ferðir verða í boði, það eru göngur á Mosfell, Laugarvatnsfjall og umhverfis Laugarvatn. Vill skólinn með þessu styðja þá stefnu Bláskógabyggðar að verða heilsueflandi samfélag. Í slíku felst að möguleikar til að bæta heilsu eru hluti af allri almennri stefnumörkun hvers sveitarfélags, sem þá hefur gert sérstakan sáttmála við embætti Landlæknis þar að lútandi.

Heilsuefling til fyrirmyndar

Í heilsueflandi samfélagi er stöðug áhersla lögð á að bæta bæði hið manngerða og félagslega umhverfi íbúa, vinna gegn ójöfnuði og draga úr tíðni og afleiðingum sjúkdóma með margvíslegu forvarnastarfi. Má þar nefna að Seyðisfjörður er orðinn heilsubær og þar verður ýmislegt á döfinni í Hreyfiviku, sem og í Reykjanesbæ, Hafnarfirði, Snæfellsbæ, Dalvík, Húsavík, Reyðarfirði og víðar.

„Já, ég reyni að ná góðri hreyfingu á hverjum degi. Hjóla, syndi og fer í gönguferðir hér um Laugardalinn í Reykjavík og í hinum Laugardalnum austur í sveitum, það er að Laugarvatni þar sem ég er uppalin. Sú sveit finnst mér einmitt gott dæmi um heilsueflingu; þar er góð íþróttaaðstaða og fólk duglegt við að hreyfa sig, sem er alveg til fyrirmyndar,“ segir Sabína Steinunn Halldórsdóttir.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert