Hrinti unnustunni og bað stúlkur um að bera sig

Héraðsdómur Vestfjarða.
Héraðsdómur Vestfjarða. mbl.is/BB

Héraðsdómur Vestfjarða hefur dæmt mann á fimmtugsaldri í níu mánaða fangelsi fyrir líkamsárás, brot gegn blygðunarsemi og barnaverndarlögum. Hann var einnig dæmdur fyrir að aka bifreið sviptur ökurétti auk þess sem maðurinn er talinn hafa rofið skilorð eldri dóms.

Dómurinn féll á föstudag. Fram kemur í dómnum að héraðssaksóknari hafi ákært manninn í mars fyrir fyrir kynferðisbrot og brot gegn barnaverndarlögum, með því að hafa aðfaranótt 13. apríl 2013 brotið gegn blygðunarsemi tveggja unglingsstúlkna, sem voru 14 og 15 ára gamlar, með því að hafa beðið þær um að sýna brjóst sín er hann tók ljósmyndir af þeim er þær voru í heitum potti fyrir utan húsið og klæddar í bikiní.

Hann var einnig ákærður fyrir líkamsárás með því að hafa að kvöldi 14. nóvember 2015 hrint þáverandi unnustu sinni með þeim afleiðingum að hún féll til jarðar og slasaðist. 

Í apríl var svo ákæra lögreglustjórans á Vestfjörðum sameinuð meðferð málsins en þar var maðurinn ákærður fyrir umferðarlagabrot með því að hafa í tvígang ekið bifreið sviptur ökuréttindum.

Framburður mannsins óstöðugur

Fram kemur í dómi héraðsdóms, að maðurinn hafi neitað sök hvað varðar kynferðisbrot og brot gegn blygðunarsemi. Hann neitaði því í upphafi skýrslutöku við aðalmeðferð málsins að hafa beðið stúlkurnar um að sýna brjóstin fyrir myndatökuna. Þeim framburði breytti hann áður en skýrslutöku lauk, þ.e. að það væri líklega rétt fyrst stúlkurnar segðu það. Dómari segir að framburður mannsins hafi verið reikull hvað þetta varðar og ekki verði talið að um staðfasta neitun hans sé að ræða.

Stúlkurnar kváðust ekki hafa orðið við beiðni mannsins en liðið illa vegna hennar. Dómurinn segir, að þótt ekki sé fullt samræmi milli orðalags stúlknanna þegar þær lýstu beiðni mannsins, hvorki í skýrslutöku hjá lögreglu né heldur fyrir dómi, megi af framburði þeirra ráða að skilningur þeirra var sá sami. Þá sé framburður þeirra beggja fyrir dómi í samræmi við framburð þeirra hjá lögreglu. Þá liggi fyrir fimm ljósmyndir sem maðurinn tók í umrætt sinn og megi af þeim ráða að hann tók myndirnar á 18 mínútna tímabili. Þá segir að framburður mannsins hafi verið óstöðugur og var niðurstaða málsins ekki byggð á honum. 

Var sambýlismaður móður annarrar stúlkunnar

Í dómnum kemur fram að maðurinn hafi verið undir áhrifum áfengis þegar þetta gerðist og að hann hafi verið sambýlismaður móður annarrar stúlkunnar.  Þá segir að hann hafi ekki sett fram neinar haldbærar skýringar á beiðni sinni og sá framburður hans fyrir dómi að þær hafi verið krúttlegar þar saman sé ekki til þess fallinn að varpa nýju ljósi á atvik.

Dómurinn telur ótvírætt að beiðni mannsins hafi verið sett fram í þeim tilgangi að sjá meira af fáklæddum líkömum stúlknanna og ná af þeim myndum. Af framburði stúlknanna mátti ráða að þær upplifðu atvikið sem óþægilegt. Þá lá fyrir að maðurinn átti myndirnar enn í síma sínum þegar rannsókn málsins hófst hátt í tveimur árum eftir að atvik gerðust. Héraðsdómur segir að háttsemi mannsins teljist vera af kynferðislegum toga og sé lostugt athæfi í skilningi 209. gr. almennra hegningarlaga sem hafi verið til þess fallið að særa blygðunarkennd stúlknanna.

Dómari komst einnig að þeirri niðurstöðu að háttsemi mannsins teljist vera ósiðlegt athæfi í skilningi barnaverndarlaga, en hver sá sem sýnir barni yfirgang, ruddalegt eða ósiðlegt athæfi, særir það eða móðgar, skal sæta sektum eða fangelsi allt að tveimur árum. 

Maðurinn játaði svo sök hvað varðar líkamsárásina og umferðarlagabrotið. 

Dæmdur til að greiða rúmar tvær milljónir í bætur

Maðurinn, sem er fæddur árið 1969, á sakaferil sem teygir sig aftur til 1993. Hann hefur fjórum sinnum verið sakfelldur og dæmdur til refsingar vegna líkamsárása og sex sinnum vegna umferðarlagabrota. 

Farið var fram á að maðurinn greiddi stúlkunum og fyrrverandi unnustu sinni miskabætur. Farið var fram á 800.000 kr. í bætur fyrir yngri stúlkuna og 400.000 fyrir þá eldri. Þá krafði unnustan fyrrverandi að hann yrði dæmdur til að greiða þrjár milljónir í bætur. 

Hvað varðar stúlkurnar þótti fjárhæð miskabóta hæfilega ákveðin 75.000 krónur til hvorrar þeirra. Unnustunni fyrrverandi voru dæmdar 500.000 kr. í bætur, að því er segir í dómi héraðsdóms.

Þá var maðurinn dæmdur til að greiða 1,5 milljónir kr. í sakarkostnað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert