Forsætisráðherra órólegur og roðnar

Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður VG.
Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður VG. mbl.is/Ómar Óskarsson

Steingrímur J. Sigfússon sagði að hröð meðferð áfengisfrumvarpsins úr allsherjar- og menntamálanefnd væri eingöngu til að berja stjórnarliðana saman. Hann og Bjarni Benediktsson forsætisráðherra lentu í snörpum orðaskiptum á Alþingi í dag.

Steingrímur sagði að þingnefndir eigi að rannsaka mál og reyna að ná samstöðu um mál ef mögulegt er. Mál séu síðan afgreidd út með mismunandi nefndarálitum ef samstaða næst ekki og þá ekki fyrr en nefndarmenn séu sammála um að mál séu fullunnin og fullrannsökuð.

Verið að reyna að safna sauðunum saman

„Hvorugt var til staðar í þessu tilviki. Það segir allt sem segja þarf í máli af þessu tagi sem búið er að senda fleiri en einni þingnefnd til umsagnar og beðið um álit að rífa það svo út fyrirvaralaust með þessum hætti og án þess að gera hinum nefndunum aðvart um að það lægi á að fá álit. Ekkert af þessu var gert. Þetta er algjörlega forkastanlegt,“ sagði Steingrímur.

Hann sagði breytingarnar eingöngu til þess að reyna að berja stjórnarliðið saman, sem var með málið í upplausn. „Það er verið að reyna að safna sauðunum saman í einn dilk með þessum breytingum,“ sagði Steingrímur en þá greip forsætisráðherra fram í og sagði málið ekki stjórnarmál.

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra.
Bjarni Benediktsson forsætisráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Hver er æstur?“

Steingrímur sagði að forsætisráðherra yrði órólegur þegar þetta mál væri rætt. „Það er ævinlega þannig að þegar þetta mál ber á góma þá verður forsætisráðherra órólegur, fer að grípa fram í og roðnar í framan. Þetta er þvílíkt hugsjónamál,“ sagði Steingrímur.

„Hver er æstur?“ heyrðist Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra kalla þegar Steingrímur gekk úr ræðustól.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert