Skýjaflákar þekja himininn

Spáð er hressilegri austanátt á sunnanverðu landinu og skýjaflákar þekja …
Spáð er hressilegri austanátt á sunnanverðu landinu og skýjaflákar þekja himininn í dag. mbl.is/Rax

Spáð er hressilegri austanátt á sunnanverðu landinu og skýjaflákar þekja himininn í dag, samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands. Búast má við snörpum vindhviðum undir Eyjafjöllum og í Öræfum sem gætu verið varasamar ökutækjum sem taka á sig mikinn vind.

„Á Suðausturlandi rignir dálítið og skúrar á stöku stað suðvestanlands. Hægari vindar fyrir norðan og mun vorsólin áfram leika við Norðlendinga nema þar sem þokan lúrir úti við sjóinn.

Á morgun leggst hann í suðaustanátt og bætir heldur í vætuna sunnan- og vestanlands, en helst áfram þurrt norðaustanlands þótt dragi fyrir sólu. Enn verður hlýtt í veðri og gæti hiti farið í 18 stig á Norður- og Vesturlandi þegar best lætur,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.

Veður á mbl.is

Veðurspá fyrir næstu daga:

Austlæg átt, 8-15 m/s við suðurströndina, en annars hægari. Rigning eða súld með köflum SA-lands, dálitlar skúrir SV-til, en annars þurrt og bjart að mestu. Suðaustan 8-13 og skúrir eða dálítil rigning á morgun, en úrkomulítið NA-til. Hiti 8 til 18 stig að deginum, hlýjast inn til landsins.

Á þriðjudag:
Suðaustlæg átt, 8-13 m/s og dálítil rigning SA-til, en annars skýjað með köflum og stöku skúrir. Hiti 8 til 18 stig, hlýjast NA-lands.

Á miðvikudag:
Norðaustan 8-13 m/s NV-til, en annars norðlæg eða breytileg átt, 3-8. Skýjað með köflum og sums staðar þokuloft við N-ströndina, en þurrt að kalla syðra. Hiti 5 til 15 stig, hlýjast syðst.

Á fimmtudag (uppstigningardag):
Suðaustlæg átt, 8-13 m/s og rigning með köflum, en úrkomulítið NA-til. Hiti 10 til 17 stig, hlýjast NA-lands.

Á föstudag, laugardag og sunnudag:
Breytileg vindátt, skýjað að mestu og víða dálítil væta. Heldur kólnandi veður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert