Hálöndin heilla íslenskar valkyrjur

Hópurinn. Arnfríður Arnadóttir, Þórdís, Katrín Atladóttir, Sólveig Auðar Hauksdóttir, Svanhildur …
Hópurinn. Arnfríður Arnadóttir, Þórdís, Katrín Atladóttir, Sólveig Auðar Hauksdóttir, Svanhildur Vigfúsdóttir, Emilia Niewada og Gunnhildur.

Þegar leiðsögumaðurinn skoski fékk tölvupóst þar sem sjö íslenskar konur vildu koma í fjallahjólaferð um ófærur hálandanna, hélt hann að vinur hans hefði sent póstinn og væri að gera grín.

Hann hafði aldrei áður fengið hóp eingöngu skipaðan konum. Hann þurfti ekki að hjálpa þeim ef sprakk á hjólunum, þær björguðu sér alltaf sjálfar, eins og íslenskum valkyrjum sæmir.

Þetta var geggjað, algjör draumur. Þrátt fyrir byltur og veikindi, þá var þetta klikkað gaman,“ segir Þórdís Björk Georgsdóttir sem er nýkomin heim eftir tíu daga á fjallahjóli um skosku hálöndin ásamt nokkrum fleirum.
Vaskar. Þeim fannst mikið til koma að fá að hitta …
Vaskar. Þeim fannst mikið til koma að fá að hitta hjólahetjuna, Rachel Atherton (sem er í hvítum bol). F.v: Gunnhildur, Þórdís, Rachel og Emilia.


„Við fórum til Skotlands sjö saman, íslenskar stelpur, í svokallaða „All Mountain“-ferð, þar sem við brunuðum á hjólunum um fjöll og firnindi. Þetta er ekki keppni, heldur fjallahjólaferð með leiðsögumanni. Okkur fannst það skondið að þegar leiðsögumaðurinn fékk fyrsta tölvupóstinn frá okkur um að við værum sjö stelpur sem vildum koma í svona ferð, þá hélt hann að vinur hans hefði sent póstinn og væri að gera grín, því hann hafði aldrei fyrr fengið hóp sem eingöngu var skipaður stelpum.“

Þórdís segir að í fjallahjólaferðinni hafi þær hjólað um miklar ófærur og skorninga. „Við hjóluðum, ýttum hjólunum eða löbbuðum með þau á öxlunum, upp fjöll og brunuðum svo niður hinum megin. Við hjóluðum allar sjö saman í fjóra daga en að því loknu fóru fjórar úr hópnum heim til Íslands. Við tókum aðeins einn dag í pásu þegar ég fór til læknis, en hann sagði mér að ég þyrfti að hvílast í tvo daga, en ég lét duga að hvíla í einn dag.

Í fjallahjólabruni þarf að láta vaða, hér stekkur Þórdís og …
Í fjallahjólabruni þarf að láta vaða, hér stekkur Þórdís og svífur í World Cup brautinni í Fort William.


Við urðum þrjár eftir, ég og Gunnhildur systir mín og Emilia Niewada, og við færðum okkur yfir í Fort William, þar sem við hittum tvo íslenska fjallahjólavini okkar, Alexander Tausen Tryggvason og Jóhannes Árna Ólafsson, en þeir ákváðu að skella sér þangað þegar þeir fréttu að við færum þangað. Þá tóku við fimm hjóladagar í viðbót, í „down hill“-brautinni í Fort William. Þetta er svæði sem er skíðasvæði á veturna en hjólabraut á sumrin, og heitir Nevis Range. Við hjóluðum á hverjum degi upp í fjallið frá bústaðnum þar sem við gistum, tókum lyftuna upp og brunuðum niður.“

Þórdís segir að þau hafi hjólað allan daginn alla dagana. „En við tókum auðvitað góðar pásur, hjóluðum ekki sleitulaust. Það voru tíu kílómetrar frá bænum og upp í hjólabrautina, sem við þurftum að hjóla, og svo tók brautin við sem var 2,44 kílómetrar og lækkunin var 525 metrar.“

Alsælar hjólastelpur. Þórdís lyftir hjólinu, Emilia í miðju og Gunnhildur …
Alsælar hjólastelpur. Þórdís lyftir hjólinu, Emilia í miðju og Gunnhildur til hægri.


Kom leiðsögumanni á óvart hversu góðar þær voru

Þórdís hefur stundað fjallahjólabrun í þrjú ár en þar til hún fór til Skotlands hafði hún einvörðungu hjólað hér heima á Íslandi.

„Náttúran í skosku hálöndunum er ekkert svo ólík því sem ég þekki hér heima, nema í Skotlandi er allt meira og stærra. En hjólabrautirnar hér heima eru mjög góðar og ögrandi, við erum vanar byltum og tæknilega erfiðum aðstæðum á hjólinum. Enda kom það leiðsögumanninum okkar stelpnanna nokkuð á óvart hversu góðar við vorum. Sem var auðvitað mjög skemmtilegt,“ segir hún og hlær.

„Honum fannst við líka mjög sjálfstæðar, ef sprakk dekk hjá okkur eða stýri klikkaði, þá græjuðum við það bara sjálfar, hann sat bara og fylgdist með okkur. Honum fannst þetta frekar óvenjulegt og skemmtilegt, enda vorum við fyrsti stelpuhópurinn sem hafði farið í þessa braut og við vorum einn fljótasti hópur sem hann hafði verið með. Við vorum fyrir vikið mjög stoltar að vera vaskir fulltrúar íslenskra kvenna í fjallahjólabruni á skoskri grund.“

Alsælar hjólastelpur í Skotlandi.
Alsælar hjólastelpur í Skotlandi.


Létu veikindi og harðar byltur ekki draga úr sér kraft

Þórdís segir að hún, Gunnhildur systir hennar og Emilia hafi upphaflega ekki ætlað að vera í tíu daga í Skotlandi að hjóla.

„Þetta vatt upp á sig og við ákváðum í lokin að skrá okkur í Downhill-keppnina sem Alexander og Jóhannes voru að taka þátt í. Sú braut er mjög erfið og það var rosalega gaman að geta hjólað hana,“ segir Þórdís og bætir við að ýmislegt hafi komið upp á sem gerði það að verkum að þær stelpurnar þrjár náðu ekki að klára keppnina.

„Ég veiktist á þriðja degi, fékk pest, hita, eyrnabólgu og bronkítis, en ég hjólaði samt allt og missti ekki af neinu. Ég tók bara verkjatöflur, fór til læknis og fékk sýklalyf. Gunnhildur systir varð líka veik, fylltist af kvefi og var mikið slöpp, og hún datt frekar illa á fyrsta deginum í downhill-brautinni í Fort William, meiddi sig í öxlinni og fékk hart höfuðhögg. Það er nauðsynlegt að fara varlega eftir slíkar byltur, svo hún kláraði ekki keppnina. Það sprakk á hjólinu hjá Emiliu í keppninni, svo hún gat ekki heldur klárað. En strákunum gekk mjög vel, Jói lenti í 29. sæti en Alex í því 35.“

Systurnar Gunnhildur og Þórdís keyptu sér skotapyls og skoskar húfur.
Systurnar Gunnhildur og Þórdís keyptu sér skotapyls og skoskar húfur.


Skotarnir eru líkir okkur

Þórdís segir að einn af hápunktum ferðarinnar fyrir þennan stelpuhóp hafi verið að hitta breskar hjólakonur og stelpur.

„Við hittum Rachel Atherton, en hún er ein sú allra besta í fjallahjólabruni. Við hittum líka tvær aðrar sem eru svakalega framarlega og sem við höfum fylgst með, en við horfum mikið á „downhill-keppnir“ og myndbönd á redbull tv og youtube. Það var virkilega gaman að hitta þessar konur og sjá þær hjóla, og frábært hvað það eru margar góðar hjólastelpur þarna úti.“

Skotana segir hún vera kurteisa og skemmtilega.

„Ég fann fyrir því hversu Skotar eru líkir okkur Íslendingum, það er eitthvert sameiginlegt eðli þarna. Og allt var mjög heimilislegt og hlýlegt, rétt eins og hér heima á Íslandi. Ekkert vesen.“

Þær valkyrjurnar eru strax farnar að plana næstu ferð út í heim, og af nægu að taka þegar kemur að fjallahólabruni. Þegar Þórdís er spurð að því hvað sé svona frábært við það að stunda fjallahjólabrun segir hún að í því sé hún hundrað prósent í núinu úti í náttúrunni.

„Að bruna niður gefur manni gott adrenalínkikk og þegar maður nær nýjum stökkum eða nær að fara yfir einhvern kafla sem hefur verið erfiður, er sigurtilfinningin mjög sterk. Á fjallahjólinu er ekki í boði að efast um sjálfan sig, maður neyðist til að trúa og treysta sjálfum sér og gera hluti þrátt fyrir að vera hræddur. Það gefur manni svo mikið bæði á hjólinu og líka í lífinu.“

Jóhannes Árni Ólafsson á ferð í brunbrautinni í Fort William.
Jóhannes Árni Ólafsson á ferð í brunbrautinni í Fort William.
Alexander Tausen Tryggvason á ferð í brunbrautinni í Fort William.
Alexander Tausen Tryggvason á ferð í brunbrautinni í Fort William.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert