Varðhald yfir grunuðum svikara staðfest

Lög­regl­an seg­ir að um brota­hrinu sé að ræða og að …
Lög­regl­an seg­ir að um brota­hrinu sé að ræða og að stöðva verði mann­inn með því að setja hann í varðhald. Hæstirétt­ur hef­ur fall­ist á þau sjón­ar­mið. mbl.is/Golli

Hæstiréttur staðfesti í dag gæslu­v­arðhalds­úrsk­urð Héraðsdóms Reykja­ness yfir manni sem grunaður er um fjöl­mörg svik á leigu­markaði. Maðurinn auglýsti húsnæði til leigu á bland.is en var ekki réttmætur eigandi íbúðanna.

Með þeim hætti hafði hann milljónir af grunlausum leigjendum. 

Héraðsdómur Reykjaness úrskurðaði 30. maí að maðurinn skyldi sæta gæsluvarðhaldi til 20. júní. Maðurinn skaut niðurstöðunni til Hæstaréttar, sem hefur nú staðfest niðurstöðu héraðsdóms. Maður­inn var fyrst úr­sk­urðaður í varðhald 6. apríl til 2. maí. Í kjöl­far þess bár­ust lög­reglu enn fleiri kær­ur vegna hátt­ern­is manns­ins. 

Lögregla telur vera sterkan rökstuddan grun um að kærði hafi svikið út fé af aðilum með blekkingum og því sé nauðsynlegt að hann sæti gæsluvarðhaldi til að lögregla geti lokið málum með útgáfu ákæru og meðferð málsins fyrir dómi.

Um sé að ræða fjársvik sem beinist að fólki sem oft sé í erfiðri aðstöðu vegna erfiðs leigumarkaðar. Það er mat lögreglu að um sé að ræða brotahrinu sem þurfi að stöðva og því sé nauðsynlegt að kærði sæti gæsluvarðhaldi til að lögregla geti lokið málum á kærða. Kærði sé undir sterkum rökstuddum grun um aðild að málunum. Kærði hafi áður komið við sögu lögreglu í tengslum við fjársvik og hafi hann hlotið dóma vegna fjársvika hér á landi og í Danmörku.

Með vísan til brotaferils kærða á undanförnum vikum og mánuðum sé það mat lögreglustjóra að yfirgnæfandi líkur séu á því að kærði muni halda áfram brotastarfsemi fari hann frjáls ferða sinna en nauðsynlegt sé að ljúka þeim málum sem eru til meðferðar hjá  lögreglu og dómstólum sem fyrst, en ákæruvaldið mun gefa út ákæru í málunum 7. júní nk. og senda Héraðsdómi Reykjaness til meðferðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert