Samningur gegn skattaundandrætti

Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra.
Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra. mbl.is/Golli

Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra, undirritar í dag fyrir hönd Íslands fjölþjóðasamning sem miðar að því að stemma stigu við skattundandrætti og skattsvikum með misnotkun tvísköttunarsamninga.

Yfir 100 ríki hafa gerst aðilar að samningnum og undirrita 68 þeirra hann í dag í tengslum við ráðherrafund Efnahags- og framafarastofnunarinnar (OECD) sem haldinn er í París.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá fjármála-og efnahagsráðuneytinu.

Fjölþjóðasamningurinn (Multilateral Instrument, MLI) tengist aðgerðaáætluninni gegn skattundandrætti skattsvikum og skattaflótta sem unnið hefur verið að frá árinu 2014 (Base Erosion and Profit Shifting, BEPS).

Að baki áætluninni stóðu aðildarríki OECD ásamt G20-ríkjunum. Ísland tók virkan þátt í mótun og samþykkt BEPS aðgerðaáætlunarinnar. Hún felst í 15 aðgerðum, m.a. að vinna gegn þróun hjá alþjóðafyrirtækjum að komast hjá skattgreiðslum, t.d. með því að nýta glufur vegna mismunandi skattareglna í ríkjum sem gert hafa tvísköttunarsamning sín á milli.

Nýi samningurinn felst annars vegar í því að eldri tvísköttunarsamningum verður breytt og ákvæði MLI ganga framar tilgreindum ákvæðum í gildandi tvísköttunarsamningi þátttökuríkja.

 Í farvatninu eru ýmsar afleiddar breytingar af BEPS og MLI sem rata munu inn í tvísköttunarsamningsfyrirmynd OECD. Meginmarkmið breytinganna er að taka af öll tvímæli um að tvísköttunarsamningum sé hvorki ætlað að ná fram lítilli eða engri skattlagningu né tvískattlagningu heldur standa gegn misnotkun og skattasniðgöngu, að því er segir í tilkynningunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert