Gætu hafa ekið á manninn

Einn sakborninganna leiddur fyrir dómara í dag.
Einn sakborninganna leiddur fyrir dómara í dag. mbl.is/Ófeigur

Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn, segist ekki vilja fara út í hvað fram hefur komið í yfirheyrslum yfir sakborningunum sem dæmdir voru í gæsluvarðhald í dag. Tæplega fertugur karlmaður lést eftir hrottalega líkamsárás í Mosfellsdal í gærkvöldi.

Fólkið, fimm karla og ein kona, voru handtekin í gærkvöldi og voru fimm þeirra úrskurðuð í 15 daga gæsluvarðhald. Einn sakborninga var úrskurðaður í viku varðhald. Grímur vill ekki svara því hver var dæmdur í viku varðhald.

Ég hef ekki viljað greina þar á milli, hver það er,“ segir Grímur í samtali við mbl.is.

Ég vil heldur ekki fara út í það sem fram kemur í yfirheyrslum,“ segir Grímur þegar hann er spurður að því hvað hefur komið fram í yfirheyrslum í dag.

Grímur segir að nú sé reynt að ná utan um atburðarásina og hver aðild sexmenninganna að málinu sé; hvort einhver sé grunaður sem aðalmaður í málinu.

Grímur vill ekki staðfesta að það hafi verið ekið á manninn, líkt og vitni hafa greint frá. „Það er bara eitt af því sem er til rannsóknar, hvort það hefur gerst. Það eru ákveðnar vísbendingar um það en það hefur ekki verið staðfest.“

Grímur segir að sótt hafi verið um gæsluvarðhald á grundvelli 211. grein hegningarlaga, sem er manndráp, og eftir atvikum annarri málsgrein 218. greinar, sem er alvarleg líkamsárás. „Þetta er rannsakað sem manndráp,“ segir Grímur.

Grímur Grímsson.
Grímur Grímsson. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert