Hátíðarhöld á 17. júní

mbl.is/Ófeigur

Á morgun munu Íslendingar á öllum aldri fagna þjóðhátíðardeginum um land allt. mbl.is tók því saman nokkra af helstu viðburðum bæði á höfuðborgarsvæðinu og víðar.

Í Reykjavík hefjast hátíðarhöld klukkan 11:10 með guðsþjónustu í Dómkirkjunni og morgunathöfn við Austurvöll þar sem forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, mun leggja blómsveig frá íslensku þjóðinni að minnisvarða Jóns Sigurðssonar. Verður aðalhátíðarsvæðið í nálægð við tjörnina en fjölskylduskemmtun í  Hljómskálagarðinum er á milli 13:00 og 17:30. Þar verður meðal annars haldin keppnin Sterkasti maður Íslands auk þess sem Sirkus Íslands mun sýna við gosbrunnin. Þá verður allsherjardansveisla í Ráðhúsinu og listgjörningur sýndur í Iðnó klukkan 16:00.

Á Ingólfstorgi verður hjólabrettapartý kl. 15:00–17:00 auk þess sem fagnað verður í Hörpu með skemmtilegum tónleikum og verður fornbílasýning þar fyrir utan. Einnig munu listahópar Götuleikhússins og Hins hússins skemmta gestum og gangandi í miðborginni. 

Er þetta í fyrsta skipti sem Höfuðborgarstofa heldur utan um hátíðardagskrána í Reykjavík en hana má nálgast í heild sinni hér. 

Á höfuðborgarsvæðinu verður víða fagnað en þar má helst nefna skemmtilega hátíðardagskrá í miðbæ Hafnafjarðar en opið verður á öll söfn og frítt inn. Í Kópavogi verður að vanda skemmti- og hátíðardagskrá á Rútstúni auk þess sem að skemmtilegir viðburðir verða í boði við Menningarhús Kópavogs. Á Seltjarnarnesi verða meðal annars tónleikar í Bakkagarði þar sem Svala Björgvins, Daði Freyr og hljómsveitin Úlfur Úlfur munu stíga á stokk.

Í flestum bæjarfélögum á landsbyggðinni er að finna ýmsar uppákomur í tilefni dagsins en dagskrá er hægt að nálgast á vefsíðum þeirra. Ber að nefna að á Akureyri verður dagskrá með hefðbundnum hætti og hefst klukkan 13:00 í Lystigarðinum. Skátatívolí verður staðsett á Landsbankaplaninu klukkan 14:00-17:00. Á Ísafirði hefjast hátíðarhöld samkvæmt venju klukkan 13:45 með skrúðgöngu og lúðrasveit frá Silfurtorgi að Eyrartúni. Þá verður LEGO-samkeppni á Egilsstöðum fyrir krakka á aldrinum 6-13 ára ásamt opnun á sumarsýningu Menningarmiðstöðvar Fljótsdalshéraðs í Sláturhúsinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert