Kennitöluflakkarar fari í bann

SA og ASÍ taka höndum saman til að stöðva kennitöluflakk.
SA og ASÍ taka höndum saman til að stöðva kennitöluflakk. mbl.is/Hanna

Samtök atvinnulífsins og Alþýðusamband Íslands kynntu í dag tillögur sem ætlað er að sporna gegn kennitöluflakki. Í tillögunum felst meðal annars að þeim sem yrðu uppvísir að kennitöluflakki yrði bannað að reka og eiga hlutafélög og einkahlutafélög í allt að þrjú ár. 

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA, og Gylfi Arnbjörnsson, formaður ASÍ, kynntu tillögurnar í Húsi atvinnulífsins í hádeginu. Í erindi sínu brýndi Halldór á því að tjónið sem hljótist af kennitöluflakki lendi á öllu þjóðfélaginu; fyrirtækjum, ríkissjóði, stéttarfélögum, lífeyrissjóð, launafólki og neytendum. Auk þess hafi það keðjuverkandi áhrif á rekstrarskilyrði annarra fyrirtækja og skekki samkeppnisgrundvöll. Því sé til mikils að vinna og fjárfesting í baráttu gegn kennitöluflakki skili sér margfalt til baka.

Fundurinn var haldinn um eittleytið í Húsi atvinnulífsins.
Fundurinn var haldinn um eittleytið í Húsi atvinnulífsins. mbl.is/Hanna

Tillögurnar voru í átta liðum. 

  • Heimild til að svipta þá einstaklinga sem teljast vanhæfir vegna óverjandi viðskiptahátta eða rökstudds gruns um refsiverðan verknað í rekstri heimild sinni til að taka þátt í stjórnun félags með takmarkaða ábyrgð í allt að þrjú ár
  • Lífeyrisiðgjöld verði betur vernduð svo að lagalegar afleiðingar fylgi því að skilja eftir lífeyrissjóðsskuldbindingar í eignalausu þrotabúi
  • Nefnd skipuð um hvort og þá hvernig megi styrkja stöðu kröfuhafa þrotabúa með lagabreytingum svo að smærri kröfuhafar sjái ávinning í því að fara í riftunarmál
  • Heimild ráðherra til að slíta félögum færð yfir til ríkisskattstjóra
  • Ríkisskattstjóri fái upplýsingar um refsidóma í tengslum við atvinnurekstur
  • Opinberir aðilar marki sér heildstæðastefnu um aðkomu sína að þrotabúum félags svo að tíðara sé að þeir beiti sér sem virkir kröfuhafar í þrotabúum
  • Hæfisskilyrði hlutafélaga nái til skuggastjórnenda
  • SA ASÍ leggi til við stjórnvöld ásamt öðrum aðilum vinnumarkaðarins að stjórnvöld taki saman höndum og vinni sameiginlega að uppbyggilegri fræðslu

List að ganga nægilega langt

Halldór Benjamín Þorbergsson segir að átak gegn kennitöluflakki séu sameiginlegir hagsmunir allra og að það hafi gefið góða raun í öðrum löndum. 

„Við eigum að sameinast um það að byggja upp þjóðfélag þar sem þeir sem hlíta öllum leikreglum séu betur settir en þeir sem reyna að fara á svig við þær. Það er morgunljóst að Samtök atvinnulífsins munu ekki láta sitt eftir liggja til að styðja löggjafann við að koma þessum umbótum á,“ segir Halldór. Spurður hvort að tillögurnar séu íþyngjandi segist hann ekki telja svo vera en á móti að vanda þurfi til verka. 

„Eins og alltaf er þetta jafnvægislist. Það er auðvelt að ganga of langt, listin er fólgin í því að ganga nægjanlega langt án þess að varpa fyrir róða hvata einstaklinga til að stofna fyrirtæki og taka áhættu.“

Tillögurnar kynntar stjórnvöldum

„Við lögðum fram ítarlegar tillögur árið 2011 þar sem við vildum sjá meiri inngrip. Síðan hefur atburðarrásin verið með þeim hætti að þetta er orðið mikið áhyggjuefni þar sem fyrirtæki upplifa samkeppnisröskun þegar aðilar ná til sín verkefnum, meira og minna í skjóli þess að standa ekki við skuldbindingar sínar,“ segir Gylfi Arnbjörnsson. Hann segist hafa tekið eftir viðhorfsbreytingum og að tillögurnar verði kynntar stjórnvöldum. 

Gylfi Arnbjörnsson, formaður ASÍ.
Gylfi Arnbjörnsson, formaður ASÍ. mbl.is/Hanna
mbl.is/Hanna
mbl.is/Hanna
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert