Vilja herta löggjöf um hatursglæpi

Höfundur skýrslunnar telur að herða þurfi löggjöf um hatursglæpi.
Höfundur skýrslunnar telur að herða þurfi löggjöf um hatursglæpi. mbl.is/Ernir Eyjólfsson

Löggjöf um hatursglæpi er úrelt og hana þarf að herða samkvæmt nýrri norrænni skýrslu sem kynnt verður á morgun. Þar kemur meðal annars fram að bæði kynin verði fyrir árásum á netinu og í svipuðum umfangi, en birtingarmyndirnar séu þó ólíkar eftir því hvort þolandinn er karl eða kona.

Skýrslan ber heitið Hat och hot på nätet – en kartläggning av den rättsliga regleringen i Norden från ett jämställdhets­perspektiv, og höfundur hennar er Moa Bladini, lektor í refsirétti við Gautaborgarháskóla.

Fram kemur í skýrslunni að þegar karlar, yfirleitt opinberir einstaklingar, verði fyrir hatursorðræðu á netinu sé yfirleitt um að ræða niðrandi ummæli um færni þeirra í starfi eða ofbeldishótanir. Þegar konur verði fyrir árásum á netinu einkennist ummælin hins vegar af kynjafordómum og kynferðislegum hótunum og áreitnin beinist frekar að persónunni sjálfri en störfum hennar.

Segja löggjöfina úrelta

Í tilkynningu um skýrsluna kemur fram að hvarvetna á Norðurlöndum sé leitað leiða til að stemma stigu við hatursorðræðu á netinu. „Ógnandi og kvenfjandsamleg ummæli sem fylla athugasemdakerfi vefmiðlanna eru lýðræðisvandi sem leiðir til þöggunar í opinberu rými. En ekki er einfalt mál að fanga sökudólgana. Úrelt löggjöf er ein af ástæðunum fyrir því. Höfundur skýrslunnar, Moa Bladini, leggur til að löggjöfin um hatursglæpi verði hert.“

Haft er eftir Bladini að á Norðurlöndum leiki vafi á því hvað teljist brot á lögum og hvernig taka eigi á ýmsum tegundum afbrota. „Sú óvissa ríkir ekki aðeins meðal þolenda nethaturs heldur einnig í röðum lögreglu, saksóknara og dómara. Þetta stofnar réttarörygginu í vanda.“ 

Einkum konur sem verða fyrir hatursorðræðu á grundvelli kyns

Norræna ráðherranefndin fól NIKK, Norrænu upplýsingamiðstöðinni um kynjafræði, að kortleggja gildandi lög um hatursorðræðu og hótanir á netinu. Skýrslan sýnir að löggjöf Norðurlandanna að þessu leyti er mjög svipuð: Hatursummæli eru refsiverður verknaður í öllum löndunum og tilteknir hópar njóta verndar laganna.

„Hvergi er þó minnst á kyn í ákvæðum laganna nema kannski í Finnlandi þar sem löggjöfin veitir fræðilegan möguleika á að telja kynið með. Hvarvetna á Norðurlöndum leikur vafi á því hvernig beita skuli ákvæðunum um hatursglæpi og hvar mörk tjáningarfrelsisins liggi. Fyrir vikið er ákvæðunum ekki beitt í eins miklum mæli og hægt væri. Umræddir hópar njóta því lítillar verndar í raun og varla nokkurrar þegar einstaklingar verða fyrir aðkasti vegna kyns síns. Þetta ber að skoða í ljósi rannsókna sem sýna að hatursorðræða gegn konum á netinu ræðst að miklu leyti af kyni þeirra,“ segir í tilkynningunni. 

Loks er haft eftir Bladini að það sé ámælisvert að ekkert landanna veiti í lögum sínum um hatursglæpi vernd einstaklingum sem verða fyrir árásum á grundvelli kyns síns, í ljósi þess að það eru einkum konur sem verða fyrir hatursorðræðu á netinu á grundvelli kyns síns, og að jafnrétti er talið mikilvægt á Norðurlöndum.

Skýrslan verður kynnt á norrænni ráðstefnu um hatursorðræðu, „Nordisk konferanse om hatefulle ytringer“, sem fram fer á morgun Stafangri í Noregi. Skýrsluna er að finna í heild á nikk.no.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert