Eldur í potti á veitingastað

Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins var kallað út að veitingastað í Hafnarstræti skömmu fyrir átta í morgun vegna elds í potti á staðnum. Að sögn varðstjóra var potturinn í eldhúsi í kjallara hússins og fóru reykkafarar og sóttu pottinn og slökktu eldinn. Verið er að reykræsta veitingastaðinn en ekki er um miklar skemmdir að ræða.

Í gærkvöldi kviknaði í gámastæðu sem er föst við iðnaðarhúsnæði í Hafnarfirði og eru gámarnir mjög illa farnir vegna elds og reyk. Slökkviliðinu tókst hins vegar að koma í veg fyrir að eldur bærist inn í húsið sjálft en einhver reykur fór þangað inn og þurfti að reykræsta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert