Minnast þeirra sem féllu í árás á skipalest

Frá fylkingunni í Hvalfirði.
Frá fylkingunni í Hvalfirði. Ljósmynd/Landhelgisgæslan

Herskip safnast saman í dag á Faxaflóa og sigla í fylkingu inn Hvalfjörð og minnast þeirra sem létust í árásum þýskra herskipa og kafbáta á skipalestirnar, og þeirra sem lögðu líf sitt í hættu við að koma björgum til Rússlands í stríðinu. 75 ár eru liðin frá því að skipalest bandamanna í síðari heimsstyrjöldinniPQ17 sigldi til Kólaskaga í Rússlandi þegar stríðið á austurvígstöðvunum stóð sem hæst.

Varðskipið Týr fer fyrir skipalestinni. „Það er viðeigandi að minnast sögu þessarar stærstu skipalestar bandamanna til Sovétríkjanna en hún lagði upp frá Hvalfirði í lok júní 1942. Á annað hundrað manns mætti örlögum sínum í Norður-Atlantshafi nokkrum dögum síðar en af 36 skipum komust aðeins 11 til hafnar,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra.

Týr fór fyrir skipalestinni.
Týr fór fyrir skipalestinni. Ljósmynd/Landhelgisgæslan

Auk þess er kafbátaeftirlitsæfing á vegum Atlantshafsbandalagsins haldin hér við land 23. júní til 6. júlí en árin 2012-2016 hafa árlegar æfingar af þessu tagi verið haldnar undan ströndum Noregs. Æfingin, sem kallast Dynamic Mongoose 2017, fer fram suður af landinu.

Níu ríki Atlantshafsbandalagsins, Bandaríkin, Noregur, Frakkland, Þýskaland, Bretland, Danmörk, Kanada, Pólland og Holland. taka þátt í æfingunni og leggja til fimm kafbáta, níu freigátur og eitt rannsóknarskip, auk 6-8 kafbátaleitarflugvéla og þyrla. Ríflega tvö þúsund manns mun taka þátt í æfingunni.

Guðlaugur Þór Þórðarson flutti stutta ræðu.
Guðlaugur Þór Þórðarson flutti stutta ræðu. Ljósmynd/Landhelgisgæslan

„Ísland er hluti af hinu breytta og flókna öryggisumhverfi sem við stöndum öll frammi fyrir. Þessi æfing er til marks um að sjónir bandamanna okkar beinast í auknum mæli að Norður-Atlantshafi og hún er því tímabær aðgerð til að styrkja eftirlit og greiningu á svæðinu,“ segir Guðlaugur Þór.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert