Nýr Audi á Bessastaði

Embætti forseta Íslands hefur keypt nýjan jeppa af gerðinni Audi. Kemur bíllinn í stað eldri jeppa af gerðinni Toyota Landcruiser, sem kominn var nokkuð til ára sinna og orðinn dýr í rekstri vegna viðhalds.

Ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvað gert verður við Landcruiserinn, að sögn Árna Sigurjónssonar, skrifstofustjóra embættis forseta Íslands.

Árni segir að Audi-bifreiðin hafi verið valin út frá ákveðnum kröfum sem lýst var í örútboði og út frá því hvernig boðnar bifreiðar stóðust kröfur og verð. Gerð var krafa um sparneytni og að hámarkseyðsla væri sjö lítrar á hverja hundrað kílómetra í blönduðum akstri. Hámark var sett á kolsýruútblástur. Árni segir bifreiðina tiltölulega vistvæna þó að hún sé ekki með rafmótor.

Embætti forseta Íslands hefur í mörg ár haft til afnota jeppa, sem nýtist í margvíslegum akstri, auk aðalbifreiðar forseta. Að sögn Árna er nýi jeppinn með fleiri sætum en sá gamli og hentar fjölskyldu núverandi forseta að því leyti vel.

Þeir bílar sem kalla má forsetabíla, að sögn Árna, eru auk jeppans Lexusbifreið, árgerð 2007, og varabifreið, Cadillac (árgerð 1990), sem helst er notuð í þjóðhöfðingjaheimsóknum. Þá á Þjóðminjasafnið Packard-bifreið, fornbíl, sem Sveinn Björnsson átti upphaflega, sem forseti nýtir við hátíðleg tækifæri og er sá bíll í umsjá forsetaembættisins. ge@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert