Mosfellingar orðnir 10.000 talsins

Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri í Mosfellsbæ, Daðey Albertsdóttir og Tómas Guðmundsson …
Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri í Mosfellsbæ, Daðey Albertsdóttir og Tómas Guðmundsson ásamt þriggja vikna gömlum syni þeirra. Ljósmynd/Mosfellingur

Mosfellingar eru nú orðnir 10.000 talsins. Það var ung og stækkandi fjölskylda sem flutti í Skeljatanga sem gerði það af verkum að þessi tímamótaáfangi náðist í Mosfellsbæ en það er bæjarblaðið Mosfellingur sem greinir frá.

Þau Daðey Albertsdóttir og Tómas Guðmundsson fluttu í Mosfellsbæ í byrjun maí og eiga þriggja vikna dreng sem hefur ekki enn fengið nafn. Daðey kemur úr Árbænum en Tómas er úr Dalabyggð.

„Okkur langaði að komast á stað þar sem stutt er í náttúruna en við erum einnig með hund á heimilinu. Eitt af skilyrðunum var líka að við yrðum í göngufæri í sundlaug,“ er haft eftir parinu í tilkynningu. Haraldur Sverrisson bæjarstjóri færði fjölskyldunni blóm og gjafir í tilefni áfangans en íbúafjöldi Mosfellsbæjar hefur farið ört vaxandi og hefur tvöfaldast á síðastliðnum 20 árum.

Þann 9. ágúst verða liðin 30 ár frá því Mosfellsbær fékk kaupstaðarréttindi en árið 1987 var nafni sveitarfélagsins breytt úr Mosfellssveit í Mosfellsbæ. Íbúar á þeim tíma voru um 3.900 talsins en í dag eru þeir orðnir 10.000 en Mosfellsbær er sjöunda stærsta sveitarfélag landsins. Til stendur að halda upp á afmæli Mosfellsbæjar með fjölbreyttri dagskrá í ágúst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert