Upplifði þöggun af hálfu skólans

Margrét Pála Ólafsdóttir, stofnandi Hjallastefnunnar.
Margrét Pála Ólafsdóttir, stofnandi Hjallastefnunnar. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Ég upplifi að þessi atvik hafi verið þögguð niður og það hafi verið gert lítið úr þeim – nema kannski núna, þegar málið ratar í fjölmiðla. Það setur pressu á skólann,“ segir Guðrún Lilja Magnúsdóttir, móðir barns í Barnaskóla Hjallastefnunnar í Reykjavík. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.

Í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær var greint frá því að skólastjóra og starfsmanni skólans hefði verið vikið tímabundið frá störfum vegna gruns um að hafa beitt fjögur börn í skólanum ofbeldi. Barnavernd Reykjavíkur hafi málið til skoðunar.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins er skólastjórinn grunaður um að hafa beitt eitt barn ofbeldi, en hlutur starfsmannsins er heldur stærri. Sá á að hafa beitt nokkra drengi ofbeldi í einhvern tíma.

Að sögn Guðrúnar Lilju hefur sonur hennar orðið fyrir einhvers konar ofbeldi af hálfu þriggja starfsmanna skólans, tveggja fyrrverandi starfsmanna og starfsmanns sem nú hefur verið vikið tímabundið frá störfum. Drengurinn hefur stundað nám við skólann í þrjú ár.

Guðrún Lilja lýsir í samtali við Fréttablaðið hvernig sonur hennar var rifinn upp á hálsmálinu þannig að hann rak öxlina í kennsluborð, hvernig hann var rifinn upp á hendinni þannig að hann marðist og hvernig hann var klipinn í framan.

„Í eitt sinn var hann rifinn upp á handleggnum af kennara, þar sem börnin voru í jógatíma að fíflast. Við vissum ekki af þessu fyrr en að við settum barnið í bað og sáum að hann var marinn og aumur. Það stórsá á honum. Þegar við ræddum það varð hann skömmustulegur og tók alla ábyrgðina. Sagðist hafa látið eins og kjáni og að þetta væri allt honum sjálfum að kenna.“

Þá hafi Guðrún og eiginkona hennar fyrst leitað til skólastjóra, annars en þess sem nú hefur verið vikið frá störfum, vegna ofbeldis í garð sonar hennar.  Guðrún Lilja gagnrýnir að skólinn hafi enga ábyrgð tekið á atvikinu og ekki boðið barninu viðeigandi aðstoð.

Umfjöllun Fréttablaðsins 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert