Mesti hitinn á Hellu

Landsmenn nutu veðurblíðunnar í dag.
Landsmenn nutu veðurblíðunnar í dag. mbl.is/Eggert

Hitinn var hæstur á Hellu í dag en þar mældist 20,3 stiga hiti. Á Suðurlandi var hitinn víða um 20 gráður. Gott veður var og er enn víðast hvar á landinu í dag. Landsmenn geta haldið áfram að gleðjast yfir sólríkum sumardögum því morgundagurinn verður einnig bjartur og fagur.  

„Það verður áfram þokkalega hlýtt og gott veður. Hlýjast inn til landsins,“ segir Haraldur Eiríksson, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands. Hann bendir á að það sem af er sumri hafi hitinn ekki náð 20 stigunum á jafn mörgum stöðum á landinu og í dag.  

Hins vegar er ekki víst að hitinn geti náð 20 stigunum á morgun líkt og í dag en hann verður þó nálægt 20 stigunum. Hlýjast verður á Suður- og Suðvesturlandi á morgun.

Áfram verður hæg breytileg átt á landinu. Mild hafgola mun leika um höfuðborgarbúa á morgun eins og jafnan er í slíku veðurfari. Hafgolan nær líklega ekki alla leið inn til landsins og því má búast við að hlýjast verði í uppsveitum.    

Á miðvikudaginn verður rólegheitaveður þegar sunnanátt með rigningu og smá skúrum lætur á sér kræla einkum á Suðvestur- og Vesturlandi. Bjartast verður fyrir norðan og norðaustan. 

Á föstudaginn verður talsvert meiri rigning um landið. 

Sjá nánar á veðurvef mbl.is

Frá Hellu sést vel til eldfjallsins Heklu á Suðurlandi.
Frá Hellu sést vel til eldfjallsins Heklu á Suðurlandi. mbl.is/Golli
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert