Hjóluðu 1.326 kílómetra á átta dögum

Liðið lagði af stað frá ráðhústorginu í Kaupmannahöfn á laugardaginn …
Liðið lagði af stað frá ráðhústorginu í Kaupmannahöfn á laugardaginn fyrir viku. Þetta er í fyrsta sinn sem íslenskt lið tekur þátt í Rynkeby-hjólreiðamótinu. Ljósmynd/Facebook-síða Team Rynkeby

„Við erum nú ennþá í eiginlega sæluvímu eftir að koma í mark,“ segir Viðar Einarsson, talsmaður Team Rynkeby á Íslandi, en í dag lauk hópur hjólreiðafólks átta daga leiðangri sínum frá Kaupmannahöfn til Parísar. 

Þetta er í fyrsta sinn sem íslenskt lið tekur þátt í Rynkeby-hjólamótinu en um er að ræða samnorrænt góðgerðaverkefni þar sem þátttakendur hjóla til Parísar og safna áheitum til styrktar krabbameinssjúkum börnum og fjölskyldum þeirra.

„Þetta hefur í raun gengið bara ótrúlega vel og veðrið verið ágætt. Það var einn dagur sem  rigndi reyndar alveg óskaplega mikið en annars gekk bara mjög vel,“ segir Viðar. Þetta er í 15. sinn sem mótið fer fram en í ár voru skráð til leiks 44 lið frá Norðurlöndunum sem skipuð voru um 1.800 hjólreiðamönnum en ásamt fylgdarliði koma yfir 2.000 manns að keppninni.

Ljósmynd/Facebook-síða Team Rynkeby

„Eitt aðal markmið verkefnisins er að safna peningum fyrir krabbameinssjúk börn. Hvert lið safnar í sínu heimalandi og við frá Íslandi söfnuðum fyrir Styrktarfélag krabbameinssjúkra barna á Íslandi,“ segir Viðar. Þó þátttakendur séu nú komnir í mark í París er söfnuninni þó ekki lokið og enn er hægt að styrkja verkefnið á heimasíðu Team Rynkeby.

Þverskurður þjóðfélagsins í liðinu

Lagt var af stað frá ráðhústorginu í Kaupmannahöfn síðasta laugardag og sem fyrr segir komu liðin í mark í miðborg Parísar í dag, á áttunda degi ferðarinnar. „Þetta eru 32 hjólarar og 8 manna aðstoðarlið og þetta endaði í 1.326 kílómetrum þegar við vorum komin hérna til Parísar,“ segir Viðar en öll liðin 44 komu saman í miðborg Parísar þar sem þau fögnuðu saman árangrinum.

Íslenska liðið samanstendur af fjölbreyttum hópi einstaklinga sem sóttu um að taka þátt á heimasíðu liðsins og var hópurinn settur saman í september.

Lið Team Rynkeby Ísland skipa 32 einstaklingar og átta manna …
Lið Team Rynkeby Ísland skipa 32 einstaklingar og átta manna fylgdarlið. Ljósmynd/Facebook-síða Team Rynkeby

„Það er reynt velja í rauninni jafnt konur og karla á öllum aldri og þverskurðinn af þjóðfélaginu getum við sagt. Það er ekki verið að leita eftir einhverjum afreksmönnum neitt frekar en öðrum, frekar að það sé góður félagsskapur og góður andi í hópnum. Aðal markmiðið er auðvitað að safna fé fyrir þetta málefni þannig að hópurinn er búinn að vera í allan vetur að þessu, að hafa gaman saman og safna styrkjum og æfa sig,“ útskýrir Viðar.

Að lokinni skemmtuninni með hinum liðunum í miðborg Parísar í dag hélt íslenska liðið aftur upp á hótel og ætlar í kvöld að snæða saman fínan kvöldverð, skemmta sér aðeins og gera vel við sig til að fagna árangrinum.

Þótt leiðangrinum í ár hafi rétt verið að ljúka hefur þegar verið opnað fyrir skráningar á heimasíðu Team Rynkeby til þátttöku á næsta ári. Umsóknarfrestur rennur út þann 20. ágúst og segir Viðar ekki annað koma til greina en að endurtaka leikinn aftur að ári.

Alls hjólaði liðið 1.326 kílómetra frá Kaupmannahöfn til Parísar.
Alls hjólaði liðið 1.326 kílómetra frá Kaupmannahöfn til Parísar. Ljósmynd/Facebook-síða Team Rynkeby
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert