Unglingalæti í Galtalæk

Lögreglan á Suðurlandi þurfti að hafa afskipti af unglingasamkomu í Galtalæk í nótt. Mikill fjöldi ungmenna var þar samankominn og þurfti að sögn lögreglu að hafa þar talsverð afskipti af ungmennunum vegna ýmissa mála.

Þá fór fram tónlistarhátíðin Laugarvatn Music Festival um helgina. Lögregla hafði þar afskipti af tveimur ökumönnum í gærkvöldi og nótt sem grunaðir voru um akstur undir áhrifum fíkniefna. Voru þeir handteknir en látnir lausir að lokinni sýnatöku og hefðbundinni afgreiðslu og gistu ekki fangageymslur í lengri tíma. Að öðru leyti fór hátíðin vel fram að sögn lögreglu.

Loks stöðvaði lögregla för ökumanns skammt frá Selfossi undir morgun sem grunaður var um ölvunarakstur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert