Segjast ekki geta keppt í verði

Hótel og veitingastaðir leita ekki mikið til bakaríanna úti á …
Hótel og veitingastaðir leita ekki mikið til bakaríanna úti á landi eftir viðskiptum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Árni Aðalbjarnarson, bakarameistari og einn eigenda Gamla bakarísins á Ísafirði, segir að það sé auðvitað alltaf val viðskiptavinarins hvort hann kaupir innflutt brauð og kökur eða þann bakstur sem frá grunni er bakaður í íslenskum handverksbakaríum.

„Þessi innflutningur er ódýrari en við íslensku bakararnir getum selt bakstur okkar á. Innflutningurinn, sem kemur að miklu leyti frá Þýskalandi, er framleiddur í stórum verksmiðjubakaríum og við getum ekki keppt við þau í verði,“ sagði Árni í samtali við Morgunblaðið í gær.

Ekki hægt að líkja saman

„Það er oft þannig að fólkið fellur fyrir því sem ódýrara er. Mér finnst ekki hægt að líkja innfluttum brauðum og brauðdeigi saman við þau brauð sem við bakararnir bökum frá grunni hér á landi. Mér finnst að við eigum að leggja allt kapp á að baka brauðin okkar og kökurnar hérna heima,“ sagði Árni.

Aðspurður hvort hótel og veitingastaðir fyrir vestan versluðu mikið við hann sagði Árni: „Já, hótel og veitingastaðirnir hérna versla mikið við mig og eru lítið að nota innfluttar vörur, þótt eitthvað sé um það. Ég held að það sé meira um það í Reykjavík en úti á landi að hótel og veitingastaðir noti innflutninginn.“

Almar Þór Þorgeirsson, bakarameistari og eigandi Almars bakara í Hveragerði, segir að hótel og veitingastaðir leiti ekki mikið til bakaríanna úti á landi eftir viðskiptum.

Leita mikið til Reykjavíkur

„Það er mikið um að hótel og veitingastaðir leiti til Reykjavíkur eftir vörum og þá oft í þessa erlendu framleiðslu, sem er sorglegt. Ég er með viðskipti við eitt hótel, sem er Hótel Eldhestar, þau kaupa allt af mér og hafa verið mjög trygg frá því ég opnaði,“ sagði Almar í samtali við Morgunblaðið í gær.

Hann segir að innflutningur á frosnu bakkelsi sé að aukast og hann hafi aldrei séð jafn mikið af innflutningi og núna. „Ég er búinn að vera lengi í þessum bransa og þetta er það mesta sem ég hef séð,“ sagði Almar.

Eiga að geta annað eftirspurn

Almar bendir á að það sé ódýrara að kaupa frosnar vörur. Bakarar nái ekki að keppa við innflutning, þar sem t.d. eitt innflutt frosið rúnstykki kosti bara nokkrar krónur, sem sé ekki einu sinni fyrir hráefniskostnaðinum hér.

„Við bakarar á Íslandi eigum alveg að geta annað eftirspurninni. Ef við fáum meiri viðskipti náum við að lækka verðið. Ef ég framleiði 200 snúða í stað 20 hlýt ég að geta lækkað verðið,“ sagði Almar Þór Þorgeirsson ennfremur.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert