„Það mesta sem hefur verið í vor“

Vatnavextir í Jökulsá í Lóni.
Vatnavextir í Jökulsá í Lóni. Ljósmynd/Sveinn Þórðarson

Talsverðir vatnavextir hafa verið í ám og vötnum á Suðurlandi eftir mikla úrkomu í gær. Í Jökulsá í Lóni hefur vatnsflaumurinn verið mikill í morgun eins og sjá má á meðfylgjandi myndum og myndbandi. 

„Þetta er það mesta sem hefur verið í vor,“ segir Sveinn Þórðarson, brúarsmiður Vegagerðarinnar, sem tók myndirnar. Síðustu mánuði hefur Vegagerðin unnið að því að skipta um gólfefni í brúnni sem er 250 metra löng. Vinnan við það hefur gengið vel og í gær var lokið við að skipta um gólfeiningar en þá eftir að setja slitgolf og bríkur á 23 metra af gólfinu sem og steypuviðgerðir.

Meðan á viðgerðunum hefur staðið hefur umferð verið stöðvuð yfir brúna, sem er einbreið, í um 10 til 15 mínútur í senn. Sveinn segir ökumenn almennt mjög þolinmóða og sýna viðgerðunum skilning. 

Góðir vatnavextir í Þórsmörk 

Lokað hef­ur verið fyr­ir um­ferð um Fjalla­bak­sleið nyrðri milli Hóla­skjóls og Land­manna­lauga vegna vatna­vaxta sem og á Laka­vegi. Áfram kem­ur til með að rigna sunn­an­lands og má því reikna má með tals­verðum vatna­vöxt­um meðal annars í Þórs­mörk og að Fjalla­baki, segir  á vef Vegagerðarinnar. 

Uppfært kl. 12.27: Vegurinn um Fjallbaksleið nyrðri milli Hólaskjóls og Landmannalauga hefur verið opnaður. Lakavegur er enn lokaður.  

Áætlanir hópbifreiða inn í Þórsmörk hafa verið samkvæmt áætlun í dag, að sögn Magnúsar Kristjánssonar, staðar­hald­ara í Húsa­dal í Þórs­mörk. „Þetta eru góðir vatnavextir en ekki eins miklir og ég bjóst við,“ segir Magnús. Hann segir veðrið vera fínt í Þórsmörk þessa stundina, blautt og lágskýjað. Þeir ferðamenn sem voru í Þórsmörk í gær létu fara vel um sig inni í úrkomunni og gerðu sumir vel við sig í drykk. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert