Glæpasögur og gin í miklu uppáhaldi

Elísabet II. Englandsdrottning er ein þekktasta kona samtímans. Andlit hennar prýðir breska peningaseðla og vart finnst það mannsbarn sem ekki hefur heyrt á nafn hennar minnst. En á bak við glamúrímyndina af þessari virðulegu drottningu sem hefur lifað tímana tvenna er kona sem ræktar sína eigin hundategund og horfir á bandaríska skemmtikraftinn Ali G.

Elísabet Englandsdrottning hefur ríkt í 64 ár, lengur en nokkur annar þjóðhöfðingi. Drottningin hefur lifað viðburðaríka ævi og getur á sínu 92. aldursári litið til baka á ótal atburði. Breska vefsíðan independent.uk.com tók saman nokkra punkta um þessa merku konu.

Elísabet II. Englandsdrottning fæddist 21. apríl árið 1926, en státar í raun af tveimur afmælisdögum. Hinum rétta í apríl og opinberum afmælisdegi í júní, en það er gert til þess að auka líkurnar á góðu veðri á hátíðarhöldunum sem haldin eru ár hvert í tilefni af afmæli hennar. Elísabet var krýnd drottning árið 1953, aðeins 25 ára gömul og var krýning hennar sú fyrsta í sögunni sem var sjónvarpað. Í valdatíð sinni hefur hún farið í 261 opinbera heimsókn til 116 landa, þar af tuttugu og tvisvar til Kanada. Henni hafa verið gefnar ótal gjafir, meðal annars fíll sem var komið fyrir í dýragarði í London. Á hverjum morgni er drottningunni færður morgunverður í rúmið sem samanstendur af skál af Special K, hafragraut, jógúrt og tvenns konar marmelaði.

Er með ofnæmi fyrir köttum

Elísabet II. er mikil hundamanneskja og ræktar sína eigin tegund en það gerir hún með því að blanda saman corgi-hundi og dachshund eða langhundi, svo úr verður dorgi. Hins vegar er hún með ofnæmi fyrir köttum. Elísabet sendi sinn fyrsta tölvupóst árið 1976 og sín fyrstu smáskilaboð árið 2005 þegar hún sendi barnabarni sínu, Harry prins, hamingjuóskir með 21 árs afmæli hans. Drottningin sjónvarpar einnig jólakveðju sinni árlega. Þá hefur hún sent um það bil 45 þúsund jólakort og fengið send yfir 3,5 milljónir bréfa frá fólki alls staðar að úr heiminum sem henni þykir gaman að lesa þegar hennar bíða engar opinberar skyldur.

Les glæpasögur í frítíma sínum

Þvert á glamúrímyndina sem margir hafa af drottningunni er hún lærður bifvélavirki en hún þjónaði sem slíkur í breska hernum á sínum yngri árum og er sögð hafa elskað að klæða sig í galla og skíta sig alla út af olíu, hálf ofan í vélarhúddi bíls. Þá er hún hvorki skyldug til þess að eiga ökuskírteini né vera með bílbelti, en þrátt fyrir skort á skírteininu lætur hún það ekki stoppa sig í að keyra. Elísabet þarf heldur ekki á vegabréfi að halda þegar hún ferðast erlendis, þar sem öll bresk vegabréf eru gefin út í hennar nafni.

Drottningin nýtur þess að fá sér stöku sinnum í glas og er ást hennar á gini vel þekkt. Hún er hins vegar lítt hrifin af kampavíni og tekur aðeins örlítinn sopa þegar henni er boðið slíkt. Hún talar reiprennandi frönsku og hefur oft haldið heilu ræðurnar á því tungumáli án nokkurra vandkvæða, en frönskuna lærði hún sjálf með því að hlusta á og tala við franska sendiherra og aðra opinbera starfsmenn Frakklands. Barnabarn hennar, Vilhjálmur prins, hefur sagt að amma sín skemmti sér oft yfir eftirhermum grínistans Ali G og hlæi mikið að honum. Þá var lögregluþátturinn Kojak í miklu uppáhaldi hjá drottningunni á sínum tíma, auk þess sem hún les glæpasögur þegar henni gefst tími til. Elísabet hefur setið fyrir á 129 málverkum, fyrst árið 1933 þegar hún var sjö ára gömul. Einnig hefur hið fræga vaxmyndasafn, Madame Tussauds, gert 22 vaxstyttur af drottningunni, sú fyrsta leit dagsins ljós þegar Elísabet var aðeins tveggja ára.

Hún á fjögur börn, átta barnabörn og fimm barnabarnabörn sem hún nýtur þess að eyða tíma með og taka ljósmyndir af, en þar að auki er hún guðmóðir þrjátíu barna í konungsfjölskyldum víðs vegar um heiminn.

Enginn ríkt lengur

Elísabet II. Englandsdrottning hefur ríkt lengst allra þjóðhöfðingja í sögu Bretlands. Röð atvika olli því að Elísabet varð drottning. Albert prins, afabróðir Elísabetar, lést áður en hann gat tekið við krúnunni og var afi Elísabetar, George fimmti Englandskonungur, krýndur í hans stað. Elsti sonur George, Edward áttundi, afsalaði sér krúnunni eftir lát föður síns, til þess að giftast ástkonu sinni, hinni bandarísku Wallis Simpson, og við það var faðir Elísabetar, George sjötti, krýndur konungur. Elísabet tók við þegar hann lést árið 1953 og hefur ríkt síðan þá.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert