Mögnuð stemning í Perlunni

Lovísa segir að gríðarlegur fjöldi leggi nú leið sína í …
Lovísa segir að gríðarlegur fjöldi leggi nú leið sína í Perluna á hverjum degi en mikil endurnýjun hefur verið á starfsemi hússins. Rammagerðin hefur meðal annars opnað þar verslun á fjórðu hæð. mbl.is/Árni Sæberg

„Það er rosamargt skemmtilegt í gangi hjá okkur í Rammagerðinni,“ segir Lovísa Óladóttir, framkvæmdastýra Rammagerðarinnar, en fyrirtækið hefur opnað tvær nýjar verslanir í Perlunni og LAVA, eldfjalla- og jarðskjálftamiðstöð Íslands, sem er á Hvolsvelli.

Hún segir að gríðarlegur fjöldi leggi nú leið sína í Perluna. „Það er skemmst frá því að segja að maður verður hissa á hverjum degi yfir öllum fjöldanum af fólki sem fer um Perluna. Fyrir utan almennt streymi frá einkabílum þá er hreint ótrúlegur fjöldi sem kemur með rútum, bæði frá skemmtiferðaskipunum og hópferðafyrirtækjum. Það er alveg mögnuð stemning í Perlunni á hverjum einasta degi.“

Lovísa nefnir að Íslendingar hafi einnig mikinn áhuga á Perlunni og segir þá vera mjög fjölmenna þar. „Það var greinilega kominn tími á að Perlan gengi í endurnýjun. Það hafa allir skoðun á henni, hún blasir við okkur öllum sem búum á höfuðborgarsvæðinu og hún skipar sess í okkar daglegu lífi.“

Spurð hvernig hafi gengið að setja upp verslunina í Perlunni segir Lovísa: „Nú er þetta gömul bygging sem var alls ekki hönnuð með gjafavöruverslun í huga þannig að við fengum Marcos og Rut hjá arkitektastofunni Basalt til að hugsa þetta með okkur. Útkoman er að vekja stórkostlega athygli.“

Rammagerðin hefur einnig opnað nýja verslun í LAVA – eldfjalla- …
Rammagerðin hefur einnig opnað nýja verslun í LAVA – eldfjalla- og jarðskjálftamiðstöð Íslands þar sem finna má eldfjallatengda vöru. Ljósmynd/Gunnar Sverrisson


Lovísa segir að áherslan á vöruúrvalinu tengist þemanu á staðnum og að í raun sé verslunin í Perlunni safnabúð. „Varan er tengd því sem er til sýnis í húsinu og mun þróast eftir því sem jöklasýning Perlu norðursins vex fiskur um hrygg á næstu misserum, t.d. þegar Náttúrugripasafnið verður opnað á næsta ári.“

Kaupa ódýrari vörur

Rammagerðin hefur einnig opnað nýja og glæsilega verslun í LAVA, eldfjalla- og jarðskjálftamiðstöð Íslands. ,,Eins og í Perlunni þá leggjum við áherslu á það í Eldfjallasetrinu að varan sé tengd sýningunni, því erum við með talsvert af eldfjallatengdri vöru. Vörur sem fást í Eldfjallasetrinu eru því ekki endilega til í Perlunni.

Lovísa segir að þar sem krónan sé svo sterk um þessar mundir þá sé innkaupamynstrið hjá ferðamönnum nokkuð breytt, ,,fólk er að kaupa aðeins ódýrari vörur og er afskaplega verðmeðvitað. Það má því segja að í augnablikinu séum við með öll loftnet uppi og fylgjumst náið með. Ég er alla daga að reyna að lesa í það hjá ferðamönnunum hvað þeir vilja og hvað þeir vilja ekki,“ segir Lovísa og hlær.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert