Eldur í starfsmannahúsi Hótels Reynihlíðar

Hótel Reynihlíð í Mývatnssveit. Starfsmannahús sem stendur í nágrenni hótelsins …
Hótel Reynihlíð í Mývatnssveit. Starfsmannahús sem stendur í nágrenni hótelsins brann í nótt. Ljósmynd/Pétur Snæbjörnsson

Eldur kom upp í starfsmannahúsi Hótels Reynihlíðar á Mývatni um fjögurleytið í nótt. Húsið er talið ónýtt eftir eldinn, en nágranni sem var eldsins var vakti þá starfsmenn sem voru þar inni í fastasvefni.

Að sögn lögreglunnar á Húsavík voru um 5-7 manns sofandi inni í húsinu, þegar tilkynnt var um eldinn klukkan hálf fjögur í nótt. „Fólkið var sofandi, en nágrannakonu tókst að gera því viðvart og það náði að komast út áður en slökkvilið mætti á vettvang,“ sagði lögreglumaður á vakt í samtali við mbl.is. „Þannig að þetta slapp ótrúlega vel.“

Uppruni eldsins er óljós, en húsið stendur við hliðina á Hótel Reynihlíð.

Búið er að slökkva eldinn og tók mikill fjöldi slökkviliðsmanna þátt í aðgerðunum, en byggingin er mjög illa farin eftir eldinn og segir lögregla að við fyrstu sýn virðist hún gjöreyðilögð.

Slökkvilið Þingeyjar- og Skútustaðahrepps kom fyrst á vettvang á einum dælubíl, en umfang eldsins var slíkt að kallað var eftir tveimur bílum til viðbótar frá slökkviliðinu, sem og slökkvibíl og mannskap frá Húsavík og Ljósavatnsskarði.

Engin bygging liggur upp við húsið og því var, að sögn lögreglu, ekki hætta á að eldurinn næði að læsa sig í næstu hús.

Málið fer í rannsókn strax og talið verður öruggt að fara inn í húsið og er von á rannsóknarlögreglu Akureyrar á vettvang fyrir hádegi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert