Fór líklega ofan í fyrir ofan fossinn

Talið er líklegt að maðurinn hafi farið ofan í ána …
Talið er líklegt að maðurinn hafi farið ofan í ána fyrir ofan fossinn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sporhundur rakti slóð hælisleitandans sem fór í Gullfoss í gær að svæði fyrir ofan fossinn. Þetta segir Sveinn Kristján Rúnarsson yfirlögregluþjónn í samtali við mbl.is sem segir að svo virðist sem hann hafi farið þar ofan í ána.

Bílinn, sem lögregla beindi sjónum sínum að fljótlega eftir að rannsókn á slysinu hófst, hafði maðurinn fengið að láni en ekki er um að ræða bílaleigubíl. Bílnum var lagt úti í horni á efra bílastæðinu við fossinn.

Bátaflokkar björgunarsveitanna gerðu út bátana í leitinni skammt frá Brúarhlöðum, …
Bátaflokkar björgunarsveitanna gerðu út bátana í leitinni skammt frá Brúarhlöðum, um átta kílómetrum frá Gullfossi. Búið er að stækka leitarsvæðið frá því sem var í gær en töluvert færri taka þó þátt í leitinni í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það er verið að klára þau verkefni sem lögð voru fyrir í dag,“ segir Sveinn í samtali við mbl.is en 60 björgunarsveitarmenn taka þátt í aðgerðum í dag, um helmingi færri en í gær. „Við erum svo að meta morgundaginn, hvað við gerum á morgun.“

Búið er að stækka leitarsvæðið töluvert frá því sem var í gær og er nú leitað enn neðar í Hvítá en gert var í gær, fyrir neðan Brúarhlöður. 

Sveinn segir það hafa gerst að fólk hafi farið í fossinn og aldrei skilað sér upp aftur. Áin sverfi sig inn í bergið út og suður og bergið er fullt af skútum. „Hann gæti tæknilega séð verið enn þá í fossinum að veltast, eða verið í skúta einhvers staðar. Þetta gæti tekið tíma, sagan segir jafnvel níu mánuðir, eða jafnvel ekki. Það hefur farið fólk í fossinn sem hefur ekki fundist,“ segir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert