Raddmenningu Íslendinga er áfátt

Hávaði í skólaumhverfinu getur haft áhrif á frammistöðu nemenda.
Hávaði í skólaumhverfinu getur haft áhrif á frammistöðu nemenda. mbl.is/Hanna Andrésdóttir

„Setji maður fána út í strekkingsvind í lengri tíma, þá trosnar hann og slitnar með tímanum. Það sama gerist ef maður þenur röddina í langan tíma, þá slitna raddböndin. Skilyrðislaust ættu þær stéttir sem nota röddina sem atvinnutæki að læra raddbeitingu í náminu; kennarar, leiðsögumenn, prestar, alþingismenn, sölumenn og fjölmiðlafólk. Þessa fræðslu er hvergi að fá, nema e.t.v. í söng- eða leikaranámi.“

Þetta segir dr. Valdís Ingibjörg Jónsdóttir, sérfræðingur í tal- og raddmeinum, í samtali í Morgunblaðinu í dag. Hún veitti faglega ráðgjöf og framkvæmdi prófanir í tilraunaverkefni um hljóðvist í skólarými sem Morgunblaðið fjallaði um fyrr í sumar. Akureyrarkaupstaður, Heilbrigðiseftirlit Norðurlands eystra, Kennarasamband Íslands, Samband íslenskra sveitarfélaga, Umhverfisstofnun og Vinnueftirlitið fóru af stað með verkefnið haustið 2015. Það var framkvæmt á Akureyri; á Krógabóli, Lundarseli og Naustatjörn, til að kortleggja hvað í starfsumhverfi leikskóla ylli mestum hávaða og hvað væri best að gera til að draga úr honum.

„Fáfræði um rödd og raddnotkun er alþjóðlegt vandamál. Fólk virðist ekki vita að raddbönd eru líffæri sem, eins og önnur líffæri, geta gefið eftir undir miklu álagi. Ég hef reynt að vekja athygli á að raddir kennara geti verið í hættu vegna þeirra aðstæðna sem þeim er beitt í, en talsverður hávaði getur verið í skólaumhverfinu. Við spáum of lítið í það hvernig viðmælendur heyra í okkur af því að við heyrum svo vel í okkur sjálf. En það er vegna þess að við yrðum líka að fara út úr okkur sjálfum til að gera okkur grein fyrir því hvernig og hvort aðrir heyra í okkur. Vandamálið er því andvara- og þekkingarleysi,“ segir Valdís.

Börn heyri ekki til gagns

Ef hægt er að minnka hávaða gagnast það bæði heyrn og rödd, heldur Valdís áfram.

„Ég var með ráðstefnu árið 2006 um skaðsemi hávaða í umhverfi barna. Doktorsritgerðin mín er um magnarakerfi í venjulegri kennslustofu. Ég er kennari þannig að mér er málið skylt. Í framhaldinu er farið að spá í það, m.a. hjá Kennarasambandi Íslands, að það þurfi að athuga hávaða í skólaumhverfi. Ég er sannfærð um að hluti ástæðunnar fyrir slæmum niðurstöðum í PISA-könnunum er að börnin heyra einfaldlega ekki sér til gagns fyrir hávaða í kennsluumhverfinu.

90% kennara kvarta

Rannsókninni ber saman við aðrar rannsóknir sem ég hef gert um það að langmesti hávaðinn er frá börnunum sjálfum vegna þess að raddnotkunin er ekki eðlileg,“ segir Valdís. „Ég er ekki hrifin af því þegar talað er um „að nota inniröddina“ við börnin, því þá er eins og það gefi leyfi til að öskra úr sér röddina þegar maður kemur út,“ bætir hún við.

Rannsóknin sýndi að mesti hávaðinn kom frá lifandi verum, ekki umhverfi eða húsgögnum. Um 90% kennaranna kvörtuðu yfir of miklum hávaða í börnunum sjálfum í spurningakönnun rannsóknarinnar og það er í samræmi við niðurstöður annarra rannsókna sem Valdís hefur gert að hennar sögn.

„Börn þurfa að læra að þau megi ekki nota röddina eins og þeim sýnist og að það sé ósiður að öskra. Rödd er afrakstur líkamsstarfsemi og raddböndin eru í hættu ef þeim er misbeitt.“

Valdís segir eðli mannsraddarinnar að hækka sig yfir hávaða, þess vegna magnist hávaðinn alltaf þegar hann er byrjaður í umhverfi þar sem fólk þarf að eiga samskipti. Niðurstaða rannsóknarinnar sýni augljóst þekkingarleysi á raddnotkun og það skorti fræðslu til þeirra stétta sem þurfa að nota röddina sem atvinnutæki.

Óhentugur mælikvarði

Valdís er gagnrýnin á mælingarnar sem Vinnueftirlitið notast við, en það eru meðaltalsmælingar. Svokallaður erilshávaði sé þess eðlis að meðaltalsmælingar séu gagnslausar, t.d. eins og að vera með þögn í tvær mínútur og skerandi hávaða í tvær mínútur, þá er ekki hægt að taka meðaltal af því og segja að mælingin sé um eða undir meðaltali. Viðmiðið hjá Vinnueftirlitinu miðist líka við hávaða sem skemmir heyrn, en í vinnuumhverfi eins og skólum þurfi að miða við hávaða sem sé ekki meiri en að „það heyrist ekki mannsins mál“ segir hún. Ekki sé hægt að breyta þessum stöðlum nema fá lagabreytingu, heldur hún áfram og vill að skólarnir fái sérlagaákvæði. Jafnaðarhávaði um 80 db yfir átta tíma vinnudag miði við verksmiðjuumhverfi, en það sé ekki jafnaðarhávaði á leikskólum, heldur erilshávaði, t.d. þegar kubbum er sturtað á gólfið, borðbúnaði skellt á borðin o.s.frv.

Raddböndin gefa eftir

Flestir raddgallar verða vegna misnotkunar á röddinni og öskur eru verst af öllu, að sögn Valdísar. Margir noti röddina til að tala hátt og kalla að óþörfu.

„Þeir sem skaða eða missa röddina eru oft í miklum vandræðum, en í flestum tilfellum er hægt að ná henni til baka með þjálfun,“ segir hún.

Fólk komi oft þegar það finnur að það er orðið hást eða búið að missa getuna til að geta sungið. Raddböndin séu tilfinningalaus, því finni maður ekki þegar maður meiðir þau. Einkenni þreytu í raddböndum séu t.d. ræskingarþörf, kökkur, hæsi og brestur í röddinni. Mikilvægt sé að kenna börnum en líka fullorðnum hvers vegna það sé slæmt að öskra og garga og hvaða afleiðingar það geti haft.

„Ég kalla því eftir vitundarvakningu og fræðslu um bætta raddmenningu, fyrir bætta heilsu og bætt vinnuumhverfi barna og fullorðinna,“ segir Valdís að lokum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert