Búist við miklum mannfjölda á Egilsstöðum

búafundur var haldinn vegna Unglingalandsmóts UMFÍ á Egilsstöðum í vikunni. …
búafundur var haldinn vegna Unglingalandsmóts UMFÍ á Egilsstöðum í vikunni. Þar hvatti Björn Ingimarsson, bæjarstjóri Fljótsdalshéraðs, bæjarbúa til að taka vel á móti gestunum.

Seyðisfjarðarvegi verður lokað að hluta og strætisvagn verður gerður út til að draga úr umferðarþunga á Egilsstöðum þegar Unglingalandsmót UMFÍ fer þar fram um verslunarmannahelgina. Gert er ráð fyrir að á annað þúsund keppendum á aldrinum 11-18 ára sæki mótið á Egilsstöðum og allt að 10.000 mótsgestum. Hugsanlegt er að mannfjöldinn raski daglegu lífi Héraðsbúa um helgina. 

Þetta kemur fram í tilkynningu frá UMFÍ.

Íbúafundur var haldinn vegna Unglingalandsmóts UMFÍ á Egilsstöðum í vikunni. Þar hvatti Björn Ingimarsson, bæjarstjóri Fljótsdalshéraðs, bæjarbúa til að taka vel á móti gestunum. Í næstu viku verður utanumhald mótsins kynnt með dreifibréfi á Egilsstöðum.

Vegurinn til Seyðisfjarðar verður aðeins lokað að hluta á sunnudeginum um verslunarmannahelgina vegna keppni í götuhjólreiðum sem fram fer á Unglingalandsmótinu. Jafnframt því verður leitað eftir því að draga úr umferð með því að bjóða upp á strætóferðir frá tjaldsvæði mótsgesta til helstu keppnissvæða. Götunni Skógarlöndum verður lokað við Valaskjálf yfir helgina.

Þungi mótsins verður mestur á svæðinu frá Vilhjálmsvelli að íþróttasvæðinu. Tjaldsvæði verður við flugvöllinn en að auki má búast við talsverði umferð við Fellavöll þar sem knattspyrnukeppnin fer fram.

Unglingalandsmót UMFÍ hefur verið haldið síðan árið 1992. Keppendur eru alls staðar að. Ekki er nauðsynlegt að þeir séu skráðir í ungmennafélag eða íþróttafélag til að geta tekið þátt. Bæði er hægt að skrá lið til þátttöku í boltaíþróttir eða einstaklinga og eru þeir settir í lið þegar líður nær keppni.

Á kvöldvökum alla mótshelgina koma fram hljómsveitir og tónlistarmenn eins og Úlfur Úlfur, Emmsjé Gauti, Hildur, Aron Hannes og margir fleiri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert