Tekjur frá stjórnvöldum tvöfölduðust

Framlög til Rauða krossins hækkuðu jukust milli ára, bæði frá …
Framlög til Rauða krossins hækkuðu jukust milli ára, bæði frá einstaklingum og stjórnvöldum. Mynd/Richard Hildebrand II

Tekjur Rauða kross Íslands af samningum við stjórnvöld tvöfölduðust milli áranna 2015 og 2016 vegna aukinna umsvifa í málefnum hælisleitenda. Þetta kemur fram í ársskýrslu Rauða krossins fyrir árið 2016. 

Stærstu verkefni Rauða krossins innanlands varða hælisleitendur og flóttafólk, en Rauði krossinn sinnir talsmannaþjónustu fyrir hælisleitendur á stjórnsýslustigi samkvæmt samningi við íslenska ríkið. Rauði krossinn sinnir einnig félagslegu hjálparstarfi fyrir hælisleitendur en um 80 sjálfboðaliðar sinntu félagsstarfi fyrir hælisleitendur undir lok síðasta árs.

Tekjur af samningum við ríkið námu 374 milljónum árið 2015 en 731 milljónum árið 2016. Til ráðstöfunar voru alls 2.152 milljónir króna til verkefna sem var 413 milljón krónum meira en árið 2015. 

Alls fóru 803 milljónir til innlendra verkefna, en meðal þeirra eru Hjálparsímann 1717, skyndihjálp, neyðarvarnir og athvörf Rauða krossins svo sem Vin, Laut og Læk sem eru fræðslu- og batasetur fyrir fólk með geðraskanir.

Alls var ráðstafað 474 milljónum, eða um 22% af heildarframlögum, til alþjóðlegs hjálparstarfs. Stærstu framlögin fóru í verkefni tengd flóttafólki í Sýrlandi, Líbanon og löndum við Miðjarðarhaf og til verkefna í Hvíta-Rússlandi. Einnig fóru stór framlög til Malaví, Sómalíu, Úganda og Kákasus.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert