Drep í húð eftir fitufrystingu

Halla Fróðadóttir, lýtalæknir og formaður félags íslenskra lýtalækna, telur að …
Halla Fróðadóttir, lýtalæknir og formaður félags íslenskra lýtalækna, telur að vanti reglur eða lög um hver megi bjóða upp á meðferðir eins og fitufrystingu og sprautun fylliefna. mbl.is/Ásdís

Síðastliðið haust fékk kona á Íslandi þriðja stigs kalsár og fullþykktardrep í húð á tveimur blettum á líkamanum eftir fitufrystingu. Þurfti hún að gangast undir aðgerðir þar sem sárin voru hreinsuð og gerð húðágræðsla. Afar sjaldgæft er að slík sár myndist af völdum fitufrystingar en í hennar tilviki er ljóst að eitthvað fór úrskeiðis með þessum afleiðingum.

Á Íslandi er fitufrysting framkvæmd á nokkrum stofum en aðeins ein þeirra býður upp á meðferðina undir lækniseftirliti.

Alvarlegasta tilvik heims

Umrædd kona leitaði á bráðadeild eftir meðferðina en strax mynduðust stórar blöðrur þar sem vélin hafði komið við húð. Lýtalæknirinn Halla Fróðadóttir tók við konunni og sá um meðferðina við að græða sárin. Hún segir þetta eitt versta tilvik sem lýst hefur verið á heimsvísu af völdum fitufrystingar og telur sárlega vanta reglugerð um þessa meðferð, svo og aðrar meðferðir sem sumar hverjar eru gerðar í heimahúsum og á snyrtistofum.
Konan sem fékk kalsárin fór í fitufrystinguna á stofu sem ekki er undir eftirliti lækna.

„Hún kom til mín í nóvember og þá var svæðið byrjað að fara í drep,“ segir Halla og útskýrir að þetta sé eins og þriðju gráðu bruni þar sem skaðinn verður í gegnum alla leðurhúðina.

Í byrjun leit sárið svona út eftir meðferðina.
Í byrjun leit sárið svona út eftir meðferðina.

„Þetta tilvik er fyrsta tilvikið í heiminum sem hefur verið lýst með svona mjög miklu drepi. Það hafði einu tilfelli verið lýst þar sem komu sár en ekki svona stór eins og þessi,“ segir Halla. Hún segir að fyrst hafi sárin þurft tíma til að sjá mætti hvernig þau myndu afmarka sig.

„Síðan var að sjá hvað myndi jafna sig og hvað færi í drep, og þar næst að hreinsa drepið í burtu. Notuð var sárasogsmeðferð til þess að undirbúa sárflötinn undir húðágræðslu,“ segir Halla en húð var tekin af líkamanum og grædd á sárin tvö. „Þetta er mjög mikill áverki, þetta er varanlegur skaði í húð, örin eru varanleg, tvö eftir sárin og eitt þar sem húðin var tekin,“ segir hún. 

„Vandamálið er að við erum að fá þarna mjög alvarlegan fylgikvilla meðferðar sem veitt er úti í bæ og varðar heilbrigði þessa sjúklings. Hún mun alltaf bera ör og mögulega vera með einhverja verki. Þetta er mikið lýti. Og þá kemur líka upp úr kafinu að það er ekkert plan til um hvað ætti að gera fyrir viðkomandi, hún getur ekki leitað réttar síns til landlæknisembættisins þar sem þessi meðferð fellur ekki undir heilbrigðismeðferð.“

Vélar fást á Ali Express

Halla segir að hver sem er geti keypt fitufrystingarvél og boðið upp á meðferð eins og staðan er í dag.

Síðar fór húðin að flagna af.
Síðar fór húðin að flagna af.


„Eftir að Coolsculpting kom með sín tæki á markað og reynsla var komin á þau, fóru önnur fyrirtæki af stað og bjuggu til sambærileg tæki. En upprunalega fyrirtækið, Coolsculpting, selur sín tæki einungis til lækna. Þetta eru dýr tæki, þróuð af læknum í Harvard,“ segir Halla og bætir við að rannsóknir sýni að Coolsculpting virki vel og að vélarnar séu öruggar.

„Svo koma aðrir og búa til eftirlíkingar og það eru fullt af þeim í gangi. Ég held m.a.s. að þú getir keypt svona tæki á Ali Express. Sum af þessum tækjum eru sjálfsagt gæðatæki en fæst ef nokkur hafa sömu rannsóknir á bak við sig og upprunalega tækið. Í raun er meðferðaraðilinn ekki með neitt í höndunum um að meðferðin beri árangur.“

Líklega stillt of kalt

Halla útskýrir hvernig fitufrysting virkar. „Þetta gengur út á það að kæla húðina og fituna undir niður að ákveðnu marki af því að fitan þolir kuldann verr heldur en húðin. Frumurnar í húðinni þola þennan kulda en ekki fitufrumurnar sem fara því í drep og líkaminn sér svo um að hreinsa þær út. Það er búið að rannsaka mikið í kringum þetta og fylgikvillar þessarar meðferðar eru mjög fáir og minni háttar,“ segir Halla. 

Ljóst er að eitthvað fór úrskeiðis í tilfelli konunnar að sögn Höllu. Spurð hvort hún haldi að tækið hafi verið stillt á of kalt, svarar hún: „Mér finnst það mjög líklegt því skaðinn kemur strax fram.“

Fyllingarefni á netinu

Halla nefnir að víða sé fylliefnum og jafnvel bótoxi sprautað í andlit, án eftirlits lækna, en í dag getur hver sem er komið sér upp tækjum og tólum til þess. Hún nefnir þó að aðeins læknir geti skrifað upp á bótox en fylliefnin eru seld víða og jafnvel á netinu. „Bótox er lyf, þannig að það heyrir undir Lyfjastofnun. Læknar mega bara skrifa út bótox en einhverjir meðferðaraðilar hafa verið að nota bótox með lækni á bak við sig sem skrifar upp á. En í langflestum tilvikum eru það húð- og lýtalæknar sem nota bótox. Aftur á móti er fylliefni flutt inn sem snyrtivörur eða læknisvara en ekki lyf og heyrir þá ekki undir Lyfjastofnun,“ segir Halla.

Að lokum kom fullþykktardrep á svæðið og þurfti að græða …
Að lokum kom fullþykktardrep á svæðið og þurfti að græða húð á sárin.

„Fylliefni er sprautað í varir og línur og hver sem er getur notað það. Bæði félag húð- og lýtalækna hafa lengi verið að óska eftir því að það yrði sett einhver reglugerð um þetta vegna þess að það getur hver sem er verið að stunda þetta út í bæ,“ segir hún.

Vantar reglugerðir

Finnst þér að fitufrysting og sprautun fylliefna ætti að vera undir lækniseftirliti?

„Já, það finnst mér. Varðandi fylliefnin, þá geta fylgt alls konar aukaverkanir. Þú getur fengið ofnæmisviðbrögð og þú nærð þessu ekki svo auðveldlega í burtu. Það er hægt að sprauta efni sem leysir upp fylliefnið en það er lyf og því einungis notað af læknum og þarf sérstaka undanþágu til að fá það lyf útskrifað. Mér finnst það engin spurning að þetta ætti að vera undir lækniseftirliti og hér vantar reglugerð um þetta.“

Hver á að gera það, landlæknir?

„Nei, landlækni kemur þetta eiginlega ekki við í dag af því að þetta telst ekki heilbrigðismeðferð. Á meðan fylliefnin eru ekki skilgreind sem lyf, þá kemur þetta í raun ekki heldur Lyfjastofnun við. Stjórnsýslan þarf að setja þessar reglur. Það þyrfti líklega fyrst að skilgreina fylliefnið og notkun þess undir læknismeðferð. Það þarf að gera reglugerð um þetta, hver má gera þetta, að þetta þurfi að vera viðurkennd stofa. Og ef það koma upp fylgikvillar, hver á þá að sjá um þetta. Eins og kom í ljós með þetta kalsár konunnar, það er í raun hún sjálf sem leitar á bráðamóttökuna. En hún talaði fyrst við stofuna sem framkvæmdi fitufrystinguna, því þetta kom í ljós strax í meðferðinni,“ segir Halla.

„Og þó svo að meðferðaraðilinn sé allur af vilja gerður til að aðstoða, þá hefur hann ekki þá þekkingu sem þarf til að meðhöndla slíka fylgikvilla.“

Óljóst með tryggingar

Halla vill brýna fyrir fólki að kynna sér vel þær meðferðir sem verið er að bjóða upp á og hvaða efni er verið að nota og hvort viðkomandi aðili hafi eitthvað á bak við sig ef eitthvað fer úrskeiðis því erfitt geti verið að sækja rétt sinn ef illa fer.


„Hver er þinn réttur ef meðferð fer úrskeiðis? Ég er skyldug til að kaupa tryggingar. Ég ber ábyrgð á mínum sjúklingum, á öllu sem miður fer og öllum fylgikvillum sem kunna að koma upp á. Meðferðarstofurnar eru ekki tryggðar fyrir fylgikvillum sinna meðferða. Það er líka partur af þessu, þetta er hjá hverjum sem er. Það er þekkt að fólk lætur sprauta í sig bæði bótoxi og fylliefni sem það kemur með heim í ferðatöskum. Og ég veit að kollegar mínir hafa verið mikið í því að laga eftir slíkt. Af því að það er gert af vankunnáttu hreinlega. Stofur eru settar upp ólöglega í heimahúsum og það er verið að sprauta efnum og þá er ekkert eftirlit með hvort þetta séu viðurkennd efni eða hvað. Þetta er villta vestrið,“ segir Halla.

„Ef þú ferð til aðila sem er ekki viðurkenndur þá veistu ekkert hvað þú ert með í höndunum. Ábyrgð hans er engin.“

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert