Kenna krökkum klifur á Grænlandi

Verkefnið East Greenland Rock Climbing Project (EGRP) snýr að því …
Verkefnið East Greenland Rock Climbing Project (EGRP) snýr að því að setja upp klifurleiðir og kenna grænlenskum börnum að klifra. Ljósmynd/Björgvin Hilmarsson

Íslenskir fjallaleiðsögumenn standa fyrir verkefninu East Greenland Rock Climbing Project (EGRP) með því markmiði að setja upp klifurleiðir og kenna grænlenskum börnum að klifra. Í fyrra héldu þau námskeið í fyrsta sinn með börnum frá þorpunum Kulusuk og Tasiilaq. Nú ætla þau aftur og í þetta sinn taka þau íslensk börn með.

Byggja upp klifursvæði til þess að kenna börnum að klifra

Björgvin Hilmarsson vinnur hjá Íslenskum fjallaleiðsögumönnum og er einn þeirra sem taka þátt í verkefninu. Hann segir að síðustu þrjú ár hafi þau unnið að því að leita að svæðum á Austur-Grænlandi þar sem hægt er að byggja upp klifursvæði. „Við erum búin að setja upp nokkrar leiðir sem eru í léttari kantinum svo hægt sé að nota þær til þess að kenna,“ segir Björgvin en leiðirnar eru allar á eyjunni Kulusuk.

Áhugasamir krakkar að klifra.
Áhugasamir krakkar að klifra. Ljósmynd/Björgvin Hilmarsson

Í fyrra héldu þau í fyrsta skipti námskeið fyrir grænlensk börn en auk þess koma krakkar frá Kulusuk og einnig frá Tasiilaq sem er á Ammassalik-eyju. Björgvin segir að þar hafi verið maður sem sá um lítinn inniklifurvegg og var að vinna með krökkunum í bænum. „Hann hafði mikinn áhuga á að taka þátt í þessu og þá kom upp sú hugmynd að hann kæmi yfir með krakka frá Tasiilaq og við héldum dagsnámskeið fyrir þau.“

Í ár ætla þau að leita að mögulegum klifursvæðum í Tasiilaq. „Hugmyndin er að stækka svæðið og leyfa fleiri krökkum hugsanlega að njóta þess að hafa klifursvæði í nágrenninu,“ segir Björgvin en hann vonast til þess að það verði tilbúið á næsta ári.

Vekja börnin til umhverfisvitundar samhliða klifrinu

Um 15 til 20 börn á öllum aldri tóku þátt í námskeiðinu í fyrra. „Það var ein fjögurra ára sem kom með systur sinni en var auðvitað ekki að klifra, bara fylgjast með og leika sér á klifurdýnu sem við vorum með,“ segir Björgvin og bætir við að það elsta hafi verið á aldrinum 16 til 18 ára.

Þá eru þau búin að skipuleggja annað námskeið í ágúst eins og það í fyrra en samhliða því að læra um klifur tína börnin rusl í kringum klifursvæðin. „Það er mikið rusl skilið eftir á víðavangi og við biðjum krakkana að tína rusl og hugsa um náttúruna á annan hátt en þau eru vön,“ segir Björgvin.

Þessari leiðist ekki að klifra upp grænlensku klettana.
Þessari leiðist ekki að klifra upp grænlensku klettana. Ljósmynd/Björgvin Hilmarsson

Klifra út úr vandamálum og einangrun

Fyrst og fremst vilja þau samt leyfa þeim að leika sér og njóta sín en Björgvin segir að börnin eigi oft við ýmis vandamál að stríða. „Krakkarnir og fólk á austurströndinni yfirleitt er oft mjög afskipt.“ Þess vegna sé gott að þau fái tækifæri til þess að gera eitthvað heilbrigt og uppbyggilegt.

Börnin alast upp við að klifra í klettunum í kring en þau hafa litla sem enga reynslu af klifri með nútímabúnaði. Á námskeiðunum læra þau að vanda sig við klifrið, nota búnaðinn, binda hnúta rétt og fleira. Hann segir að það sé magnað að fylgjast með því hvað mörg þeirra hafa mikla hæfileika í klifrinu. 

„Við fáum mjög mikið út úr því að sjá hvað …
„Við fáum mjög mikið út úr því að sjá hvað þau hafa gaman af þessu og finnum að þetta gerir þeim gott og þau hlakka til að fá okkur aftur,“ segir Björgvin. Ljósmynd/Björgvin Hilmarsson

Taka börnin sín með

Í ár fara að auki fjögur íslensk börn á aldrinum 7 til 16 ára með til Grænlands til þess að taka þátt í námskeiðinu, klifra og kynnast grænlensku krökkunum. Hugmyndin kviknaði hjá Björgvini sem ákvað að taka dóttur sína með en hún hefur mikinn áhuga á klifri. Í kjölfarið ákváðu fleiri að gera það sama. „Við ákváðum að taka börnin með. Töldum það bæði gott fyrir þau og gaman fyrir grænlensku krakkana.

„Við fáum mjög mikið út úr því að sjá hvað þau hafa gaman af þessu og finnum að þetta gerir þeim gott og þau hlakka til að fá okkur aftur,“ segir Björgvin og þau vona að þau geti haldið áfram að byggja upp verkefnið á næstu árum og gert námskeið að árlegum viðburði. Jafnvel haldið það oftar en einu sinni að sumri.

Ljósmynd/Björgvin Hilmarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert