Öll sveitarfélögin sýna vináttu í verki

Yfir 40 milljónir hafa safnast hér á landi vegna náttúruhamfaranna …
Yfir 40 milljónir hafa safnast hér á landi vegna náttúruhamfaranna í Grænlandi. Söfnuninni lýkur í vikunni. AFP

Yfir 40 milljónir króna hafa safnast í Landssöfnun Hjálparstarfs kirkjunnar, Kalak og Hróksins, Vinátta í verki, vegna náttúruhamfaranna á Grænlandi. Þá hafa öll sveitarfélögin 74 lagt söfnuninni lið.

Söfnuninni lýkur í vikunni en eftir að hún hófst hafa þúsundir einstaklinga, fyrirtækja og félaga lagt málefninu lið með framlögum sínum. 

„Viðbrögð almennings slógu strax öll fyrri met í neyðarsöfnunum Hjálparstarfs kirkjunnar. Þúsundir og aftur þúsundir hafa hringt í styrktarsímann eða lagt inn á söfnunarreikninginn. Fyrirtækin okkar hafa líka, sum hver, sýnt rausn og myndarskap,“ segir Hrafn Jökulsson, aðalskipuleggjandi Vináttu í verki, í tilkynningu.

Mynda kærleikskeðju í kringum landið 

Síðustu vikur leituðu aðstandendur Vináttu í verki til allra sveitarfélaga á Íslandi um að mynda svokallaða kærleikskeðju í kringum landið og hefur það nú tekist. 

„Þannig vildum við bæði sýna grönnum okkar stuðning og kærleika á erfiðum tímum, en líka endurgjalda Grænlendingum sem efndu til landssöfnunar þegar snjóflóðið mikla féll á Flateyri 1995,“ segir Hrafn. 

Öll sveitarfélög á Íslandi hafa lagt söfnuninni Vinátta í verki …
Öll sveitarfélög á Íslandi hafa lagt söfnuninni Vinátta í verki lið og styrkja þar með fórnarlömb náttúruhamfaranna á Grænlandi í síðasta mánuði. Ljósmynd/Vinátta í verki

Fjórir fórust og gríðarlegt eignatjón varð þegar flóðalda gekk yfir smáþorpið Nuugaatsiaq, aðfaranótt 18. júní. Fénu verður farið í þágu íbúa Nuugaatsiaq í samvinnu við fólkið sjálft, sveitarfélagið og þá aðila sem munu hjálpa fórnarlömbunum að byggja upp líf sitt að nýju.

Söfnunarreikningur og styrktarsími verða opin næstu vikuna, en Hrafn segir að endahnúturinn verði uppboð nú í vikunni þar sem tveir sannkallaðir dýrgripir verða á boðstólum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert