Klára að malbika síðasta kaflann í dag

Unnið er að malbikun á síðasta kaflanum á Suðurlandsvegi við …
Unnið er að malbikun á síðasta kaflanum á Suðurlandsvegi við Selfoss í bili. Búast má við einhverjum umferðartöfum vestan Selfoss vegna þessa fram eftir degi í dag. Mynd úr safni. mbl.is/Styrmir Kári

„Þetta er nú bara held ég alveg að verða búið. Þetta er síðasti kaflinn á Suðurlandsvegi í bili við klárum í dag,“ segir Gunnar Örn Erlingsson hjá malbikunarstöðinni Hlaðbær Coals hf. sem annast malbikunarframkvæmdir á Suðurlandsvegi.

Ölfusárbrú var lokuð frá miðnætti í gær vegna framkvæmdanna. Opna átti fyrir umferð yfir brúna aftur klukkan sex í morgun en vegna tafa var ekki unnt að opna fyrr en um klukkan níu í morgun.

„Við fengum glugga frá miðnætti til klukkan sex og svo var þetta bara flóknara af því við erum að fræsa kaflann. Þetta var flóknari fræsing heldur en við áttum von á þannig að við gátum ekki byrjað fyrr en milli klukkan tvö og þrjú [í nótt] og þá dróst þetta um einhverja 2-3 tíma,“ útskýrir Gunnar.

Í dag er unnið að mal­bikun annarrar akreinarinnar á Suður­lands­vegi frá hring­torginu við Toyota vestan megin við Sel­foss í átt­ að Bisk­upstungna­braut. Ak­rein­in verður lokuð á meðan og umferð stýrt fram­hjá. Áætlað er að fram­kvæmd­irn­ar standi yfir eitthvað fram eftir degi. Á meðan yfir stendur þurfa vegfarendur að sýna þolinmæði að sögn Gunnars.

„Það er ekki hægt að gera þetta nema það verði einhverjar tafir, það er auðvitað bara þannig að við leggjum malbikið og það er auðvitað ekkert hægt að keyra á því á meðan við erum að leggja og heldur ekki alveg strax á eftir,“ segir Gunnar. „Fólk verður auðvitað bara að sýna þessu skilning og það gerist ekki allt kviss bang.“

Hlaðbær Coals annast einnig framkvæmdir á Miklubraut en í nótt verða framkvæmdir frá gatnamótunum við Grensásveg að gatnamótum við Kringlumýrabraut. Akreininni verður lokað á meðan og umferðahraði minnkaður framhjá vinnusvæðinu en áætlað er að framkvæmdirnar standi yfir milli kl. 01.00 og  06.00 í fyrramálið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert