Tengslin við náttúruna eru mikilvæg

Kristín Þorleifsdóttir ásamt þeim Greg og Devon.
Kristín Þorleifsdóttir ásamt þeim Greg og Devon. mbl.is/Golli

Kristín Þorleifsdóttir er búsett í Bandaríkjunum þar sem hún starfar við háskóla þar í landi. Í háskólanum er svokallað fræðslusetur í hugleiðslufræðum og dagana 28.-30. júlí munu tveir kennarar frá setrinu, þau Greg og Devon, ásamt Kristínu, halda hugleiðslunámskeið í Hveragerði þar sem áhersla er lögð á að auka núvitund fólks og hjálpa fólki að komast í betri tengsl við náttúruna.

Þetta er mjög spennandi námskeið. Mitt framlag felst í hugleiðslu í náttúrunni. Margir þjást af streitu og áreiti í daglegu lífi og á námskeiðinu einbeitum við okkur að græðandi áhrifum náttúrunnar.“ Þetta segir Kristín Þorleifsdóttir en hún mun, ásamt Bandaríkjamönnunum Greg og Devon Hase, halda námskeið í hugleiðslu og núvitund í Skyrgerðinni í Hveragerði dagana 28.-30. júlí. Kristín er búsett í Wisconsin í Bandaríkjunum þar sem hún kennir hönnun og landslagsarkitektúr við háskólann í Madison.

„Þar er stórt og mjög þekkt fræðasetur í hugleiðslufræðum sem Greg og Devon hafa lengi starfað við. Þau eru vel þekktir kennarar og leiðbeinendur í bæði hugleiðslu, núvitund og jóga, hafa kennt víða í Bandaríkjunum og Evrópu. Þau eru núna að ferðast um Norðurlöndin með þetta námskeið. Byrjuðu í Finnlandi og Svíþjóð, komu síðan hingað til Íslands, og munu svo fara til bæði Danmerkur og Færeyja. Þau eru búddistar og bæði sálfræðimenntuð en Greg er að klára doktorspróf í sálfræði með áherslu á hugleiðslu. Þetta eru því þrælöflugir kennarar og hafa mikinn áhuga á því að tengjast inn í umhverfið hérna,“ segir Kristín.

Tenging við náttúruna mikilvæg

Greg og Devon eru með áralanga reynslu í hugleiðslu og …
Greg og Devon eru með áralanga reynslu í hugleiðslu og miðla nú af þeirri reynslu til Íslendinga. Þau hafa heillast af landi og þjóð.


Kristín mun sjálf koma að hluta námskeiðsins, sem hún nefnir núvitund í náttúrunni og byggir á tækni til þess að fá sem mest út úr upplifuninni. „Við förum í þrjár gönguferðir þessa daga sem námskeiðið er haldið, eina á dag. Við förum út í umhverfið, bæði manngert og náttúrulegt og vinnum með upplifun í umhverfinu og hvernig við getum þróað þá tækni að skilja betur tengsl okkar við umhverfið og hvernig umhverfið hefur áhrif á almenna heilsu og vellíðan. Ég býð upp á svona námskeið úti í Bandaríkjunum, sem hluta af þjálfun hönnuða, þá fer ég með nemendur í gönguferðir út í náttúruna þar sem við einbeitum okkur að skynfærunum og umhverfisupplifun okkar almennt, lærum að skilja betur þörf fólks fyrir og finna þessa náttúrutengingu.

Íslendingar næmari en aðrir

En hvers vegna skyldi Hveragerði hafa orðið fyrir valinu? „Það er hluta til af praktískum ástæðum, það er stutt frá Reykjavík,Hveragerði bæði yndislegur staður og er, að mínu mati, einn af fáum stöðum á landinu sem hefur veitt hugleiðslufræðum dálítið mikla athygli í gegnum tíðina, með sterka tengingu við náttúruna sem þar er. Hveragerði hefur lengi verið talið mikill heilsubær en þar er meðal annars starfrækt náttúrulækningafélag. Skyrgerðin er líka skemmtilegt lítið hótel sem stílar svolítið inn á fólk sem er meðvitað um umhverfið.“

Kristín segist vona að námskeiðið verði einstök upplifun í vingjarnlegum hópi fólks. „Í einni gönguferðinni munum við ganga inn í Reykjadal, Devon og Greg verða meðal annars með kennslu í Reykjadalsánni. Svo vill svo skemmtilega til að Mugison verður með tónleika á föstudagskvöldið. Spurð hvort fólk hafi verið að taka vel í þetta svarar Kristín því játandi. „Það er rosalegur áhugi fyrir hugleiðslu og núvitund. Við eigum von á um 20 manns, bæði Íslendingum og Bandaríkjamönnum, við Íslendingar erum stundum svolítið sein að taka við okkur. En það er mikill áhugi á hugleiðslu almennt á Íslandi. Hér eru margar jógastöðvar og margir að bjóða upp á námskeið í hugleiðslu og núvitund.“ Í huga margra er Ísland heillandi eyja sveipuð dulúð og spurð hvort hún telji það hafa einhver áhrif á þjóðina segir Kristín svo vera. „Ég held að Íslendingar séu almennt næmari og áhugasamari en aðrir gagnvart þessum hlutum, þeir skilja hversu mikilvæg andleg heilsa er. Svo er gaman fyrir erlenda gesti að koma til Íslands til þess að fara á svona námskeið þar sem þeir reyna að tengja saman áhuga og þörf fyrir hugleiðslu, sérstaklega í náttúru eins og Ísland býður upp á.“ Kristín segir þetta vera í fyrsta skipti sem Greg og Devon koma hingað til lands og segir þau vera svo heilluð af bæði landi og þjóð að þau séu nú þegar farin að tala um að koma hingað á hverju ári.“

Hugleiðsla góð gegn stressi

Greg og Devon eru bæði sálfræðimenntuð og ferðast nú um …
Greg og Devon eru bæði sálfræðimenntuð og ferðast nú um Evrópu til að kenna hugleiðslu og núvitund. mbl.is/Golli


Þau Devon og Greg hafa, eins og áður sagði, starfað lengi við hugleiðslu og segir Devon það vera virkilega skemmtilegt starf. „Við höldum oft námskeið fyrir fólk sem starfar við andlega krefjandi störf.“ Þau geta verið allt frá einum degi og upp í þrjá daga og eru sérstaklega vel sótt af fólki sem starfar við að hjálpa öðrum, svosem læknum, hjúkrunarfræðingum, sálfræðingum, kennurum og fólki sem starfar í félagsþjónustu. „Við hjálpum þeim að ná tökum á hugleiðslunni svo þau nái að slaka á og öðlast ró í sínu persónulega lífi.. Það hjálpar þeim að vera betur undirbúin til þess að takast á við daglegt amstur í sínu starfi. Við leiðbeinum þeim hvernig á að vinna með stress og kvíða, hvernig þau geta öðlast hugarró og hjálpum þeim að finna aftur innblásturinn sem varð til þess að þau ákváðu að leggja tiltekið starf fyrir sig.“

Spurð hvernig þetta hafi gengið segir Devon að þessi námskeið séu alla jafna mjög vel sótt. „Hugleiðsla og núvitund er mjög vinsælt í Bandaríkjunum, þessi hugmynd að það búi eitthvað gott innra með okkur öllum og að við höfum öll það sem við þurfum til þess að finnast við fullnægð og sátt með líf okkar. Manneskjan þreytist fljótt á öllu áreitinu sem er í kringum hana, allri tækninni, hraðanum, því að þurfa að gera margt í einu og bara öllu því sem gerir lífið yfirþyrmandi í daglegu amstri nútímans. Svo hugleiðsla er leið okkar mannfólksins til þess að ná tökum á áreitinu og finna vellíðan. Margir finna fyrir vellíðan bara með því að fara út að ganga, sitja við sjóinn eða jafnvel vera í góðra vina hópi. Þetta augnablik þar sem viðkomandi er staddur í núinu og nær að njóta þeirrar stundar til fullnustu, það hjálpar okkur að líða betur. Hugleiðsla og núvitund styrkir þennan eiginleika innra með okkur, að eiga auðveldara með að lifa í núinu.“

Innbyggt í íslenska menningu

Devon er ekki í vafa um að Íslendingar muni njóta sín á þessu námskeiði. „Ég er handviss um að Íslendingar muni eiga auðvelt með þetta. Þó við höfum bara verið hér í nokkra daga finnst mér eins og þið Íslendingar hafið nú þegar sterkan grunn að byggja á, Íslendingar eru ef til vill mun tengdari en þeir gera sér grein fyrir. Svo þetta námskeið getur hjálpað Íslendingum að styrkja það sem þeir búa nú þegar yfir.“ Á námskeiðinu mun fólk læra hvernig á að komast í dýpri tengsl við náttúruna sem og að öðlast betri færni í samskiptum við annað fólk. Í gönguferðunum verður áhersla lögð á slökun í hversdagslegu umhverfi og virkja skilningarvitin með djúpu samtali við náttúruna. Innifalinn í námskeiðagjaldinu er hádegisverður alla þrjá dagana, en mögulegt er að óska eftir grænmetis- eða veganfæði fyrir þá sem það kjósa. Fyrir áhugasama má nálgast frekari upplýsingar um námskeiðið, bæði á Facebook síðu viðburðarins og á vefsíðunni www.exploringiceland.is/iceland-meditation. Þá má einnig læra meira um starf þeirra Greg og Davon á heimasíðu þeirra www.satimindfulness.com

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert