Tryggja að börnin valdi ekki skaða

Ekki er gerð krafa um ökuréttindi fyrir ökumenn léttra bifhjóla. …
Ekki er gerð krafa um ökuréttindi fyrir ökumenn léttra bifhjóla. Myndin tengist fréttinni ekki með beinum hætti. mbl.is/ Sigurgeir Sigurðsson

Árekstur varð við Langholtsskóla á dögunum þegar drengur keyrði á mikilli ferð á léttu bifhjóli með þeim afleiðingum að hann lenti framan á barni á reiðhjóli. Samgöngustofa brýnir fyrir fólki mikilvægi þess að aka þurfi bifhjólunum með varúð.

Georg Hilmarsson greindi frá atvikinu á facebooksíðu fyrir íbúa í Langholtshverfi en hann varð sjálfur vitni að slysinu. Var hann að hjóla á svæðinu þegar hann sá drenginn aka á fullri ferð á bifhjólinu og keyra framan á ungan dreng sem var á hjóli ásamt móður sinni.

„Það hefði getað farið mun verr, vonandi eru meiðslin einungis þessi myndarlega kúla sem var komin á ennið á hrausta drengnum. Reiðhjólið hans var eitthvað tjónað, allavega ónýt framgjörð,“ segir í færslunni sem hann birti á Facebook.

Gilda sömu reglur og um önnur ökutæki 

Létt bifhjól í flokki 1 eru vélknúin ökutæki sem ná ekki meiri hraða en 25 kílómetrum á klukkustund og eru annaðhvort raf- eða bensíndrifin. Ekki er gerð krafa um ökuréttindi en ökumaður verður að vera 13 ára eða eldri til þess að aka hjólinu.

„Númer eitt, tvö og þrjú er að það gilda þær reglur um léttbifhjól eins og með hjólreiðar á gangstígum,“ segir Einar Magnús Magnússon hjá Samgöngustofu. „Gangandi vegfarendur hafa algjöran forgang og eru aðrir vegfarendur í raun gestir á gangstígum og gangstéttum.“

Mikilvægt er að haga akstri og hraða þannig að hann komi öðrum vegfarendum ekki á óvart og gefa skal tímanlega hljóðmerki. Þá þarf að taka tillit til þess að gangandi vegfarandi getur verið með skerta athygli, með heyrnartól í eyrunum eða jafnvel heyrnarskertur og því verður hraði hjólsins að vera lítill innan um aðra vegfarendur.

Mikilvægt að foreldrar séu vel upplýstir 

Heimilt er að aka léttum bifhjólum í flokki 1 á götum en Einar Magnús segir að Samgöngustofa mæli ekki með því að það sé viðhaft nema á götum þar sem leyfður hámarkshraði er minni en 50 kílómetrar á klukkustund. 

„Það er mikilvægt að foreldrar og forráðamenn kynni sér þær reglur sem gilda um þessa tegund bifhjóla áður en þeir fjárfesta í svona tæki og tryggi sem best að börnin þeirra komi heil heim og valdi ekki skaða. Þetta eru nefnilega frábær tæki ef rétt er með þau farið,“ segir Einar Magnús.

Hægt er að nálgast upplýsingar um notkun og öryggi léttbifhjóla á vefsíðu Samgöngustofu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert