Metfjöldi til neyðarmóttöku í júlí

mbl.is/Hjörtur

Metfjöldi mála á einum mánuði kom á borð neyðarmóttöku fyrir þolendur kynferðisofbeldis á Landspítala í júlí, þegar tuttugu og átta manns leituðu þangað. Samtals hefur 41 einstaklingur leitað til neyðarmóttökunnar í júní og júlí, og 110 það sem af er ári.

Hrönn Stefánsdóttir, verkefnastjóri neyðarmóttökunnar, segist ekki muna eftir jafn miklum fjölda í áraraðir. Metfjöldi koma á einum mánuði í fyrra voru 21, en það var jafnframt mesti fjöldi sem sést hafði árum saman. Þá leituðu fleiri á neyðarmóttökuna í fyrra en nokkru sinni fyrr, en þá voru 169 komur skráðar. 

Það hafa ekki verið að koma svona mörg mál síðan eftir verslunarmannahelgina 2001, þegar það komu 21 mál eftir þá helgi,“ segir Hrönn í samtali við mbl.is.

RÚV greindi fyrst frá málinu, en fjöldi málanna kemur fram í nýjum tölum frá Landspítalanum. Þetta gerir nærri eitt mál á dag allan mánuðinn. Öll brotin, fyrir utan eitt, áttu sér stað á höfuðborgarsvæðinu.

Fleiri komur líklega vegna meiri umræðu en ekki fleiri brota

Spurð um það hvort brotum hafi fjölgað eða hvort þolendur leiti í auknum mæli á neyðarmóttöku segist Hrönn halda að hið síðarnefnda sé raunin. „Fólk veit að það getur leitað sér aðstoðar í tryggu umhverfi,“ segir hún og bætir við að aukin umræða í samfélaginu hafi mikið að segja. „Þessi almenna vitundarvakning um ofbeldi og hvaða afleiðingar það hefur er að ýta á eftir fólki að leita sér aðstoðar sem fyrst, því það er hægt að fá hjálp.“

Hrönn bendir á að þjónusta neyðarmóttökunnar sé sérhæfð; þar starfi hjúkrunarfræðingar sem séu sérþjálfaðir til að taka á móti þolendum kynferðisofbeldis, og sérþjálfaðir læknar einnig. Auk þess sé boðið upp á réttargæslu og sálfræðiþjónustu brotaþolum að kostnaðarlausu. Neyðarmóttakan sé einnig í samstarfi við lögregluna, og þar sé sérstakt teymi í kynferðisbrotamálum.

„Ég held að fólk hafi traust til móttökunnar og viti að það er mikilvægt að leita sér aðstoðar sem fyrst,“ segir Hrönn. Þá segir hún gott samstarf vera við Bjarkarhlíð, móttökumiðstöð fyrir þolendur ofbeldis.

Loks segir hún skömmina ekki eiga að liggja hjá brotaþola heldur geranda. „Það er ekki eins og neinn bjóði upp á að láta brjóta á sér kynferðislega og fókusinn verður að vera meiri á gerendur og af hverju þeir brjóti á öðrum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert