„Viljinn var einfaldlega enginn“

„Við lögðum fram tillögu í borgarstjórn 16. maí um að grunnskólanemendur í Reykjavík fengju skólagögn endurgjaldslaust. Meirihlutinn var hins vegar ekki reiðubúinn að samþykkja tillöguna og að þetta yrði að veruleika í haust. Þess í stað var málinu vísað til fjárhagsáætlunar 2018 og kemur þá til skoðunar hvort þetta verði þarnæsta haust.“

Frétt mbl.is: Ólíklegt að borgin útvegi námsgögn

Þetta segir Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina, í samtali við mbl.is en haft er eftir S. Birni Blöndal, formanni borgarráðs Reykjavíkurborgar og borgarfulltrúa Bjartrar framtíðar, í frétt Ríkisútvarpsins í morgun að ólíklegt sé að það náist að bjóða upp á skólagögn án endurgjalds í grunnskólum borgarinnar í haust.

Fjölmörg sveitarfélög hafa ákveðið að bjóða grunnskólabörnum upp á skólagögn án endurgjalds í haust eða að minnsta kosti sautján samkvæmt upplýsingum frá Barnaheillum. Þar á meðal eru Akra­nes, Reykja­nes­bær, Hafn­ar­fjörður, Ak­ur­eyri, Sandgerði og Ísafjarðarbær en það síðastnefnda reið á vaðið fyrir nokkrum árum í þessum efnum.

Hugsanlega kosningalykt að málinu

Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina.
Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina. mbl.is/Sigurgeir Sigurðsson

„Ef það hefði verið vilji hjá meirihlutanum fyrir þessu hefði þetta verið hægt í haust því tillagan var lögð fram um miðjan maí. Þá lá fyrir bráðabirgðaútreikningur frá skóla- og frístundasviði upp á um 100 milljónir króna fyrsta árið. Þannig að það lá nokkurn veginn fyrir á þessum tíma hver kostnaðurinn yrði. Viljinn var einfaldlega ekki til staðar.“

Guðfinna segir að fulltrúar meirihlutans í Reykjavík, sem samanstendur af Samfylkingunni, Vinstrihreyfingunni - grænu framboði, Bjartri framtíð og Pírötum, hafa borið það fyrir sig að frumvarp um málið lægi fyrir á Alþingi um málið vildu þeir sjá hvernig það færi. En ég benti þá á að stutt væri eftir af þinginu og því ólíklegt að það næðist í gegn.

„Fyrir vikið væri eðlilegt að samþykkja tillöguna okkar og minnti ég á áskorun þess efnis lægi fyrir frá Barnaheillum. En viljinn var einfaldlega enginn,“ segir Guðfinna. Orðalag S. Björns bendi til þess að meirihlutinn sé að skýla sér á bak við það að einhver tímaskortur sé vegna málsins en tæpir þrír mánuðir séu síðan tillagan hafi verið lögð fram í borgarstjórn.

„Það hefði verið nógur tími til þess að gera þetta ef viljinn hefði verið fyrir hendi. En kannski er ætlunin að leggja þetta til á næsta ári, kosningaárinu, svo það líti vel út í aðdraganda kosninga,“ segir hún. Mörg önnur sveitarfélög hafi verið að samþykkja að fara þessa leið eða hliðstæða töluvert eftir að tillagan hefði verið lögð fram í borgarstjórn í maí.

Meirihluti jöfnuðar viljalaus í málinu

Halldór Halldórsson, oddviti sjálfstæðismanna í borgarstjórn, segir ljóst að þróunin sé í þessa átt og að færð hafi verið rök fyrir því að málið eigi sér stoð í barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna um að ekki megi mismuna börnum. Það sé nokkuð merkilegt að meirihlutinn í borginni sem kenni sig við jöfnuð hafi ekki viljað taka málið upp á sína arma. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert