Veggurinn bæti öryggi gangandi og hjólandi

Horft frá Klambratúni, framhjá veggnum, yfir Miklubraut.
Horft frá Klambratúni, framhjá veggnum, yfir Miklubraut. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Veggir sitthvoru megin Miklubrautar við Klambratún eru settir upp til að bæta hljóðvist og umhverfigæði íbúa við Miklubraut og þeirra sem nota útivistarsvæðið á Klambratúni. Þetta kemur fram á Facebook-síðu Reykjavíkurborgar.

Þingmaðurinn Pawel Bartoszek sagði í vikunni að veggurinn væri ljót framkvæmd og með þessu væri verið að festa hraðakstur á svæðinu í sessi. 

Borgin segir að veggurinn bæti öryggi gangandi og hjólandi. Verkefnið sé samstarfsverkefni Reykjavíkurborgar og Vegagerðarinnar og Vegagerðin geri þá kröfu að leitast sé við að hindra að að gangandi vegfarendur geti farið yfir Miklubraut við Klambratún nema á gangbrautarljósum við Reykjahlíð.

„Í dag er umferð gangandi vegfarenda yfir götuna hindruð með vegriðum og girðingu í miðeyju. Við hönnun stóð því valið á milli þess að hafa vegrið og girðingu í miðeyju eða lága veggi sitt hvoru megin götunnar,“ segir á síðu borgarinnar.

Þar kemur fram að íbúar Hlíða hafi komið með ítrekaðar beiðnir um að hljóðvist yrði bætt. Að norðanverðu verður grjótveggurinn 1,3-1,5 metra yfir akbraut en að hámarki um 1,2 metra yfir hæð hjóla- og göngustíga. Að sunnanverðu verður steyptur veggur sem verður um 1,0- 1,2 metra hár. 

Vilja lækka hámarkshraða

Sérstaklega var hugað að auknu öryggi gangandi og hjólandi og bættri aðstöðu fyrir þá. Umferðarhraði um götuna á ekki að aukast en hugað er að því að draga úr hraðanum. 

Rannsóknir hafa sýnt að með því að þrengja sjónsvið ökumanna, t.d. með gróðri og lágum veggjum eins og þarna er gert, dregur úr hraða bílaumferðar. Það er vilji borgaryfirvalda að lækka hámarkshraða á Miklubraut á þessum stað úr 60 km/klst í 50. Framangreindar breytingar munu styrkja þá viðleitni en samþykki lögreglu og Vegagerðarinnar þarf til að af því verði.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert