Eins og fortíðardraugar

Auðbrekkufólk talið frá vinstri; Bergvin Þórir 16 ára, Cecilia Porter …
Auðbrekkufólk talið frá vinstri; Bergvin Þórir 16 ára, Cecilia Porter vinkona þeirra frá Kanada, Anna Ágústa 15 ára, Þórdís Þórisdóttir, Ísak Óli 12 ára, Bernharð Arnarson og Karin Thelma 11 ára. Ljósmynd/Áslaug Ólöf Stefánsdóttir

Heimilisfólkið að Auðbrekku í Hörgárdal mætti uppábúið á hestbaki í 150 ára afmælismessu Möðruvallaklausturskirkju að Möðruvöllum á sunnudaginn. Hvatt hafði verið til þess að fólk mætti ríðandi í afmælismessuna og datt heimilisföðurnum að Auðbrekku, Bernharði Arnarsyni, í hug á laugardagsmorgninum að það yrði gaman að klæða fjölskylduna upp á.

„Það kom upp sú hugmynd að fara ríðandi í messu og af minni alkunnu vitleysu ákvað ég að taka það skrefi lengra og klæða fjölskylduna upp og láta hana líta út fyrir að vera almúgafjölskylda fyrir hundrað og fimmtíu árum. Það tóku allir ótrúlega vel í þetta, ótrúlegt en satt,“ segir Bernharð. Kona hans er Þórdís Þórisdóttir og eiga þau fjögur börn á aldrinum 11 til 16 ára. Auk fjölskyldunnar var kanadísk vinkona þeirra með í för.

Oftast notalegar stundir

Fötin fengu þau lánuð hjá Leikfélagi Hörgdæla, sem Bernharð hefur starfað mikið með, Leikfélagi Akureyrar og frá Gamla bænum í Laufási. Þá fékk Bernharð lánaðan söðul hjá frænda sínum sem frúin reið í. Hann segir athæfið hafa vakið athygli kirkjugesta. „Það komu margir ríðandi til messu, á milli 20 og 30 manns, en það var enginn eins vitlaus og við að klæða sig svona upp,“ segir hann hress í bragði.

Rúmlega fimm kílómetrar eru á milli Auðbrekku og Möðruvalla. Bernharð segir fjölskylduna fara reglulega í kirkju. „Við reynum að gera það og þetta eru oftast notalegar stundir. Ég býst ekki við að við mætum svona til fara í hvert skipti en gæti trúað því að eftirleiðis verði árleg hestamessa á Möðruvöllum.“

Auðgaði guðsþjónustuna

Þórdís Þórisdóttir reið í söðli, hér er hún fyrir framan …
Þórdís Þórisdóttir reið í söðli, hér er hún fyrir framan Möðruvallarklausturskirkju og lætur hestinn prjóna lítillega. Ljósmynd/Áslaug Ólöf Stefánsdóttir


Séra Oddur Bjarni Þorkelsson, prestur í Möðruvallaklausturskirkju, segir uppátæki Auðbrekkufjölskyldunnar mjög skemmtilegt. „Það auðgaði guðsþjónustuna heilmikið að fá allt þetta fólk ríðandi til messu svo ég tali ekki um suma svona prúðbúna. Það var tekin hópmynd af öllum að messu lokinni og þau eru inn á milli svolítið eins og fortíðardraugar. Það er skemmtilegt að ramma inn 150 ára sögu kirkjunnar með einhverjum sem hefðu getað komið fyrir 150 árum á þeim fararskjóta sem var brúkaður þá,“ segir sr. Oddur Bjarni. Hann messar í Möðruvallaklausturskirkju að jafnaði einu sinni í mánuði yfir vetrartímann og kveður messusókn alla jafna góða.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert