„Í öllum litum regnbogans“

Barnastarf kirkjunnar hófst í flestum sóknum höfuðborgarsvæðisins í gær, þar …
Barnastarf kirkjunnar hófst í flestum sóknum höfuðborgarsvæðisins í gær, þar á meðal í Hallgrímskirkju. Þangað mættu um tuttugu börn ásamt aðstandendum, lærðu nýtt lag og léku helgisögu.

„Þegar ég var barn hérna í gamla daga fóru börnin bara sjálf í sunnudagaskóla, löbbuðu eða voru keyrð og þetta var einhvern veginn allt öðruvísi. Núna er þetta meira orðið gæðastundir sem foreldrar eiga með börnunum sínum eða amma og afi að leyfa foreldrunum að sofa út.“

Þetta segir Elín Elísabet Jóhannsdóttir, verkefnisstjóri fræðslumála hjá Biskupsstofu. Í gær hófst barnastarf kirkjunnar í nær öllum sóknum á höfuðborgarsvæðinu og hefst starfið á landsbyggðinni einnig nú um þessar mundir.

„Það er ákveðin námsskrá sem farið er eftir og út frá henni er alltaf samið námsefni fyrir hvern vetur. Þetta árið erum við með yfirskriftina „í öllum litum regnbogans“, sem er skírskotun til þess að við í barnastarfinu fögnum öllum litbrigðum lífsins,“ segir Elín.

Þótt helstu áherslur í barnastarfinu hafi löngum verið svipaðar hefur þó margt breyst frá fyrri tíð að sögn Elínar, en hún hefur starfað við fræðslustörf hjá kirkjunni síðan 1992. „Nú er þetta náttúrlega orðið rosalega ólíkt því sem það var í gamla daga,“ segir Elín. Til að mynda sé nú notast fræðsluefni á stafrænu formi, en meðal námsefnis sunnudagaskólans í ár eru stuttir fræðsluþættir sem framleiddir voru fyrir sunnudagaskólann og nýtt lag eftir Þorleif Einarsson í flutningi söngkonunnar Regínu Óskar Óskarsdóttir sem krakkarnir læra. Þá fá öll börn sem taka þátt í sunnudagaskólanum litríkt veggspjald sem þau skreyta með límmiðum.

Fín þátttaka um allt land

„Venjulega er bara þátttakan góð. Við erum með dálítið misjafnlega stóra sunnudagskóla, sumir eru mjög fjölmennir en aðrir eru bara litlir og krúttlegir,“ segir Elín, en boðið er upp á sunnudagaskóla í öllum sóknum landsins þar sem eru börn. „Auðvitað erum við að kenna þeim um guð og trú og hvernig þau geta leitað í þá átt þegar þau þurfa á að halda í lífinu. En við erum ekki síður að kenna þeim að umgangast hvert annað af kærleika og að umgangast allt fólk, umhverfið og náttúruna og að kærleikur og virðing sé höfð að leiðarljósi,“ segir Elín um helstu gildi sunnudagaskólans.

Vikulegir fjölskyldumorgnar

Sunnudagaskólinn hófst í Hallgrímskirkju í gær, en þangað mættu um 20 börn í fylgd foreldra eða annarra aðstandenda. Krakkarnir lærðu nýtt lag sunnudagaskólans og léku helgisöguna þar sem Jesús segir: „Leyfið börnunum að koma til mín.“ Öflugt æskulýðsstarf er í Hallgrímskirkju, en þar er jafnframt boðið upp á vikulega fjölskyldumorgna. „Það hefur orðið svolítið alþjóðlegur bragur á því. Við erum að fá mjög alþjóðlegan hóp af foreldrum sem eru enn heima með börnin sín,“ segir Inga Harðardóttir, æskulýðsfulltrúi Hallgrímskirkju. „Það er mjög stór hópur og hress sem hittist á miðvikudögum.“ Þar er mikið um söng, oft boðið upp á barna-zúmba og stundum er haldinn fataskiptamarkaður að sögn Ingu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert