Fengu 20 milljónir vegna WOW cyclothon

Magnús Ragnarsson og Skúli Mogensen, stofnendur WOW Cyclothon, ásamt Þóri …
Magnús Ragnarsson og Skúli Mogensen, stofnendur WOW Cyclothon, ásamt Þóri Þorsteinssyni varaformanni Slysavarnarfélagsins Landsbjörg, Jóni Svanberg Hjartarsyni, framkvæmdastjóra þess, starfsmönnum og meðlimum Björgunarsveitar Hafnarfjarðar Ljósmynd/Aðsend

Slysavarnarfélagið Landsbjörg fékk í gær afhentar yfir 20 milljónir króna frá hjólakeppninni WOW cyclothon, en um er að ræða árangur áheitasöfnunar sem keppendur og aðstandendur þeirra söfnuðu. 

Skúli Mogensen og Magnús Ragnarsson, stofnendur keppninnar, afhentu ávísunina í húsnæði Björgunarsveitar Hafnarfjarðar að viðstöddum meðlimum hennar. Í tilkynningu frá keppninni er haft eftir Þór Þorsteinssyni, varaformanni Slysavarnarfélagsins Landsbjargar, að framlög sem þessi séu starfi landsbjargar afar nauðsynleg. „Íslenskt samfélag hefur treyst á starf Landsbjargar í mörg ár og við treystum einnig mikið á að samfélagið styðji  við bakið á okkur. Okkar starf mun njóta góðs af þessu framlagi,“ er haft eftir honum.

Heildarupphæðin sem var afhent var 20.655.210 krónur, en keppni var milli liða um hver safnaði mest. Sigurvegarar áheitakeppninnar  var lið CCP en þau söfnuðu 1.651.000 krónum og hlutu allir liðsmenn gjafabréf frá WOW air að launum. Í öðru sæti var lið Aero Mag með 1.410.000 en þeim tókst að safna tíu þúsund krónum meira en lið Opinna kerfa – Creditinfo sem var í þriðja sæti með 1.400.000 krónur safnaðar. 

Það má segja að það hafi verið lið CCP sem kom, sá og sigraði í WOW Cyclothon 2017 því auk þess að sigra áheitakeppnina komu þau fyrst í mark í B flokki karla þar sem 10 manna lið keppast til sigurs.  Sigurvegarar í öðrum flokkum voru Team Cannondale GÁP Elite í A flokki, XY Cycling í B flokki kvenna, Team TRI í B flokki blönduðum og bandaríkjamaðurinn Peter Coljin í einstaklings flokki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert