Átta hjóla trukkur sat fastur

Önnur hliði slóðarinnar gaf eftir, svo trukkurinn seig þeim megin.
Önnur hliði slóðarinnar gaf eftir, svo trukkurinn seig þeim megin. Ljósmynd/Ásgeir Ingvarsson

„Snjórinn verður blautur þegar sólin skín þannig að á þessum árstíma er hætta á festum,“ segir Herbert  Hauksson, eigandi Mountaineers of Icelans. Mbl.is fékk sendar meðfylgjandi myndir af 8 hjóla trukk fyrirtækisins sem festist uppi á Langjökli núna eftir hádegið.

Herbert áætlar að bíllinn hafi verið fastur í um 20 mínútur en að ekki sé óalgengt að festa bíla í jöklaferðum. „Þetta er nú ekki alvarleg festa. Ég hef þurft að moka þennan bíl upp með skóflu,“ segir hann léttur í bragði. Hann segir að líklega hafi trukkar frá fyrirtækinu Into the Glacier komið til aðstoðar. Fyrirtækin tvö eigi í góðu samstarfi.

Trukkur búinn undir að draga trukk á Langjökli.
Trukkur búinn undir að draga trukk á Langjökli. Ljósmynd/Ásgeir Ingvarsson

Farþegar af skemmtiferðaskipi

Mountaineers of Iceland fer með ferðamenn upp á Langjökul allt árið um kring, bæði að vestaverðu og austanverðu. Fyrirtækið býður ýmist upp á ferðir með trukkum, líkt og þessum á myndinni, eða á snjósleðum. Haukur segir að að þessu sinni sé um að ræða farþega af skemmtiferðaskipi.

Ferðaþjónustan hefur undanfarin misseri kvartað nokkuð undan bakslagi í ferðaþjónustu. Herbert segir hins vegar að mikið hafi verið að gera að undanförnu. „Þetta virðist vera að hrökkva í gang og er með líflegra móti,“ segir hann um stöðuna. Dagsferðir upp á jökul kosta á bilinu 25 til 47 þúsund krónur, samkvæmt vefsíðu fyrirtækisins.

Kortleggja sprungurnar

Spurður hvort jöklaferðum sem þessum fylgi ekki nokkur hætta svarar Herbert því til að hún sé auðvitað fyrir hendi. Hins vegar fylgist fyrirtækið, og önnur fyrirtæki sem starfi á jöklinum, náið með sprungusvæðunum og aki alltaf sömu slóðirnar. Síðsumars, þegar snjór frá síðastliðnum vetri hafi bráðnað, sé auðvelt að kortleggja sprungurnar.

Herbert var sjálfur á jöklinum í gær og segir að hann hafi hitt á fyrsta kvöldið þetta haustið þar sem norðurljósin skarti sínu fegursta. Það hafi verið stórbrotin sjón. Hann segir að í ferðirnar að vestanverðu sé farið um Húsafell. Þaðan um Geitland og að skálanum Jaka. Þaðan sé haldið á jökullinn á stórum bílum eða sleðum. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert