Nokkur ár í skólphreinsistöð í Árborg

Ásta Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri Árborgar.
Ásta Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri Árborgar. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Áætlaður kostnaður sveitarfélagsins Árborgar vegna fyrsta áfanga við skólphreinsistöð er um 450-500 milljónir króna á verðlagi dagsins í dag. Framkvæmdir við skólphreinsistöðina hefjast í fyrsta lagi í ársbyrjun 2019 því skólphreinsistöðin er enn í umhverfismati og verður líklega fram á næsta ár, að sögn Ástu Stefánsdóttur framkvæmdastjóra Árborgar. Óhreinsað skólp Selfyssinga mun því renna áfram óhreinsað út í Ölfusá næstu árin og tilheyrir þeim fjórðungi landsmann sem býr ekki við neina skólphreinsun, eins og fram kemur í nýrri skýrslu um frárennslismál sveitarfélaga.

Öll þéttbýlissvæði höfðu frest til ársins 2005 til að vera komin með fullnægjandi skólphreinsun. Í skýrslu Umhverfisstofnunar um frárennslismál sveitarfélaga kemur fram að við gerð hennar voru áætlanir sveitarfélaga um uppbyggingu fráveitna ekki skoðaðar.

Hefðu viljað vera byrjuð á skólphreinsistöð

Skólphreinsistöðin í Árborg mun eingöngu grófhreinsa skolpið og sem rennur í gegnum ristar sem sía föst efni frá. Þetta er fyrsta stig skolphreinsunar. Skólpinu verður þaðan veitt gegnum lagnir út í Ölfusá þar sem áin er straumhörð og skólpið þynnist því fljótt.

„Við hefðum gjarnan viljað vera byrjuð á þessu,“ segir Ásta spurð hvort það hafi ekki tekið of langan tíma að koma upp skólphreinsikerfi í sveitarfélaginu.

Þar sem þetta er fyrsta stig skolphreinsunar kæmi til greina í framtíðinni að hreinsa skolpið frekar en þá þyrfti að koma upp annarri skólphreinsistöð við hlið þessarar sem myndi hreinsa skolpið enn frekar. „Við ætlum að byrja á þessu og sjá hverju þetta skilar,“ segir Ásta.

Loks allt skólp komið í sama kerfi

Heilbrigðiseftirlitið mælir reglulega saurmengun í Ölfusá. Þær mælingar hafa ýmist verið undir æskilegum viðmiðum eða yfir. „Auðvitað kemur alltaf öðru hvoru í ljós mengun. Það er óhjákvæmilegt,“ segir Ásta spurð út í sýnilega mengun af fráveitu skolpsins út í Ölfusá. Í þessu samhengi bendir Ásta á að áður hafi óhreinsuðu skólpi verið veitt út í ána á ýmsum stöðum en nú sé allt skólpkerfið komið í sama kerfi og þar af leiðandi sé komin forsenda fyrir því að hreinsa það enn frekar.       

Sveitarfélagið hefur þegar fest kaup á búnaðinum sem verður notaður í verkið og einnig er hönnun skolphreinsistöðvarinnar lokið. Skólphreinsistöðin verður í landi Geitaness sem er fyrir neðan byggðina við Selfoss og stendur skammt frá flugvellinum. Sveitarfélagið festi kaup á umræddri jörð meðal annars í þessu skyni fyrir nokkrum árum.  

Skólphreinsistöðin verður á Geitanesi við Ölfusá.
Skólphreinsistöðin verður á Geitanesi við Ölfusá. map.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert