Norðmenn sinna sjálfsvígsforvörnum betur

mbl.is/Rósa Braga

Norðmenn eru Íslendingum framar þegar kemur að forvörnum gegn sjálfsvígum, segir Engilbert Sigurðsson, prófessor í geðlækningum og yfirlæknir á geðsviði Landspítala-háskólasjúkrahúss.

Engilbert vísar til norska prófessorsins dr. Lars Mehlum sem var einn af fyrirlesurum á fræðslufundi í dag um forvarnir gegn sjálfsvígum. Lars er prófessor í geðlækningum og forstöðumaður sjálfsvígsrannsókna- og forvarnarmiðstöðvar Óslóarháskóla. Lars hefur einnig unnið fyrir Alþjóða heilbrigðisstofnunina.

Breytingar á lögum um skotvopn og brúarhandrið 

„Og það mér finnst standa uppúr er hvað Norðmenn hafa sinnt þessu vel, hvað þeir hafa lagt mikla fjármuni til og þjálfað fagfólk og aðra sem eru lykilaðilar í því að koma að því að greiða götu þeirra sem eru með sjálfsvígshugsanir, inn í heilbrigðiskerfið,“ sagði Engilbert í síðdegisþættinum Magasíninu á K100 í dag.

Engilbert nefndi sem dæmi að sjálfsvígum hafi fækkað eftir tvær sértækar aðgerðir í Noregi, annars vegar var gerð breyting á löggjöf um meðferð skotvopna og hins vegar voru sett upp stærri handrið en áður við norskar brýr.

Samfélagsleg ábyrgð

Guðrún Jóna Guðlaugsdóttir sem stýrði undirbúningi fræðslufundarins sagði hinn norska Lars hafa lagt mikla áherslu á samfélagslega ábyrgð. „Það sem mér fannst kannski áhugaverðast við það sem hann sagði var það að þetta er ekki mál fagfólksins að sporna við sjálfsvígum, eða vinna að forvörnum, þetta er samfélagið allt sem þarf að koma til,“ sagði Guðrún Jóna.

Íslensk átaksverkefni ekki nóg

Engilbert Sigurðsson, yfirmaður á geðsviði Landspítalans, sagði Norðmenn vera á allt öðrum stað en Íslendinga í þessum efnum. „Þeir ákváðu 2004 að leggja 6,3 milljarða norskra króna í það að efla sína geðheilbrigðisþjónustu í víðasta skilningi. Við erum ekki að setja neitt sem nálgast það í okkar geðheilbrigðisþjónstu.“

Engilbert sagði að orð og efndir sem birtist í fjárlögum verði að fara saman svo raunverulegar breytingar verði. „Annars erum við alltaf í þessum átaksverkefnum og það er bara ekki nóg,“ sagði Engilbert.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert