Bergur: „Einhver samtrygging í gangi“

Bergur Þór Ingólfsson leikstjóri og baráttumaður.
Bergur Þór Ingólfsson leikstjóri og baráttumaður. mbl.is/Árni Sæberg

Í menningarkima eldri karla er litið á kynferðisbrot sem lítilvæg, sem þau eru ekki, og það að ríkisstjórnin springi í kjölfar umræðunnar um uppreist æru sannar það. Þetta segir Bergur Þór Ingólfsson, leikstjóri og faðir eins brotaþola Róberts Downey. Hann þakkar nýfemínismanum og stelpum sem rífa kjaft fyrir að hafa galopnað umræðuna.

„Ég held að fólk sé búið að fá nóg,“ sagði Bergur í samtali við mbl.is skömmu fyrir hádegi, inntur eftir viðbrögðum við fregnum gærdagsins og næturinnar. Hann segir orðin „holy shit“ hafa fallið oft á heimilinu síðusta sólarhing. „Þetta er eitthvað sem maður hefði aldrei getað ímyndað sér, frekar en annað, síðustu þrjá mánuði.“

Bergur Þór hefur látið vel í sér heyra síðustu misseri og verið áberandi meðal þeirra sem hafa fjallað um uppreist æru undir herópinu #Höfumhátt.

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra, Sigríður Andersen dómsmálaráðherra og Brynjar Níelsson formaður …
Bjarni Benediktsson forsætisráðherra, Sigríður Andersen dómsmálaráðherra og Brynjar Níelsson formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Þau eru öll þingmenn Sjálfstæðisflokksins. mbl.is

En hvernig var honum við þegar fréttist í gær að Benedikt Sveinsson, faðir Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra, hefði veitt Hjalta Sigurjóni Haukssyni, dæmdum barnaníðing, góða umsögn og að Sigríður Andersen dómsmálaráðherra hefði haft vitneskju um það í nokkrun tíma?

„Ég var bæði hissa og eitthvað small um leið,“ svarar Bergur. „Vegna allrar þessarar tregðu. Og í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd; þegar þau ganga út og vilja ekki sjá gögn. Og hvernig talað hefur verið. Og að dómsmálaráðherra og formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar [Brynjar Níelsson] segja bara: Þessi gögn verða aldrei birt.

Við spyrjum aftur og aftur: Af hverju, af hverju? Hvar eru rök eða stoð fyrir því? Og þau voru aldrei til staðar í rauninni. Okkur fannst þetta fáránlegt, öll þessi tregða.“

Traustið löngu farið

Bergur segir uppljóstrun gærdagsins, um að dómsmálaráðherra hefði upplýst forsætisráðherra um aðkomu föður hans í júlí en þagað um það við aðra, svar við áðurnefndri spurningu.

„Eins fáránlegt og það er. Af því að þarna eru samflokksmenn fráfarandi forsætisráðherra, sem ganga mjög hart gegn því að við fáum upplýsingar,“ segir Bergur. „Ég er á því að flest lög í landinu virka en ekki þau um uppreist æru. En það voru þarna lög sem virkuðu þannig að við fengum að sjá þessar upplýsingar og þetta kemur í ljós. Þetta er algjörlega..,“ segir hann og þegir stutta stund. „Ég hafði ekki ímyndunarafl til að sjá að þetta væri ástæðan fyrir þessu öllu saman.“

Bergur Þór Ingólfsson var gestur á opnum fundi allsherjar- og …
Bergur Þór Ingólfsson var gestur á opnum fundi allsherjar- og menntamálanefndar. Formaður nefndarinnar, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, hugðist í fyrstu ekki taka einstaka mál til umræðu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Bergur er fljótur að svara inntur eftir því hvort hann hefði treyst ríkisstjórninni til að leiða málið til lykta ef hún hefði ekki fallið í nótt.

„Nei, það traust er löngu farið,“ svarar hann. „Það fór með fyrstu ummælum formannsins [stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar] um að þessir glæpir gagnvart dóttur minni... Að verri glæpir væru til,“ segir Bergur.

„Þegar hann fer að tala um niður glæpi barnaníðinga með þessum hætti fór traustið á formanninum. Og þegar samflokksmenn hans gengu útaf fundinum og vildu ekki skoða gögnin, þá var það traust farið líka. En þeir sem sátu eftir í nefndinni og gagnrýndu þetta; ég ber traust til þeirra.“

Bergur segir það tilfinningu þeirra sem komið hafa að málinu „að einhver samtrygging sé í gangi.“

„Öll umræðan í kringum hina valinkunnu... Mig langar ekkert að sjá þetta fólk í einhverjum gapastokk, alls ekki, og það má ekki gerast. En að fá þessi gögn og sjá hvað þeir skrifuðu um níðinginn í samhengi við glæpi hans og skýringarnar sem þeir gefa fyrir því að þeir hafi skrifað undir, sýna okkur að þeir líta léttvægt á þessa glæpi. Og það er í okkar huga stóra málið. Að í þessum menningarkima eldri karla er litið á kynferðisbrot sem lítilvæg, sem þau eru ekki, og að stjórnin sé sprungin á þessu máli sannar það.“

Menningarkimi hrútanna

Margir hafa þakkað Bergi fyrir framgöngu hans og jafnvel viljað eigna honum að sprengja ríkisstjórnina. Sjálfur segist hann telja að fólk sé einfaldlega búið að fá nóg.

„Ég hef náttúrlega stigið fram og verið andlit fyrir dóttur mína og fjölskylduna og brotaþola Róberts Downey, og ég er þakklátur fyrir öll þessi skilaboð sem fólk er að senda mér. En ég held að þetta sé deigla og ég held að nýfemínisminn sé stór hluti af þessu; það að stelpur eru að rífa kjaft og rífa niður akkúrat það sem ég var að tala um áðan, þennan menningarkima hrútanna. Þær hafa oft hlotið bágt fyrir en það er alveg satt að það er risastór þáttur í þessu máli,“ segir Bergur.

Bergur segir fregnir gærdagsins hafa komið á óvart. Þá hefði …
Bergur segir fregnir gærdagsins hafa komið á óvart. Þá hefði eitthvað smollið. Ríkisstjórnin féll í kjölfarið, þegar Björt framtíð sagði sig frá stjórnarsamstarfinu í nótt. mbl.is/Hanna

Hann segir tugi manna og kvenna hafa stigið fram og sýnt stuðning sinn og nefnir sérstaklega Þórdísi Elvu Þorvaldsdóttur, Karl Ágúst Úlfsson, Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur Pírata, Svandísi Svavarsdóttur þingmann Vinstri grænna og fjölmiðla.

„Í rauninni sprakk leyndarhyggjan. Við vörpuðum bara ljósi á hana. Við sprengdum enga ríkisstjórn; við vörpuðum bara ljósi á hana,“ segir Bergur.

Spurður segist Bergur vissulega óttast að umræðan um uppreist æru týnist í argaþrasi stjórnmálanna næstu misseri.

„Við óttumst að það gangi ekki hratt að breyta lögum um uppreist æru. Og við vildum að lögum um lögmannsréttindi yrði breytt á þann veg að þeir sem hafa orðið uppvísir að því að níðast kynferðislega á börnum fái ekki að sinna lögmannsstörfum. Hingað til hefur þetta bara átt við um þá sem hafa orðið gjaldþrota. Sem er algjörlega fáránlegt.“

En mun hann þá láta áfram í sér heyra?

„Ef þarf. Nokkrum sinnum höfum við sagt: Jæja, nú tekur einhver annar við. En við munum algjörlega halda áfram að hafa hátt ef þess þarf.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert