„Stórkostlegt ábyrgðarleysi“

Sigríður Andersen er dómsmálaráðherra.
Sigríður Andersen er dómsmálaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Mér finnst þetta lýsa stórkostlegu ábyrgðarleysi af hálfu þessa litla flokks, sem er þó með fjóra þingmenn á þingi og hefur lýst sig reiðubúinn til að starfa í ríkisstjórn,“ sagði Sigríður  Andersen dómsmálaráðherra í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun um viðbrögð sín við tíðindum næturinnar. Stjórn Bjartrar framtíðar sendi frá sér tilkynningu rétt eftir miðnætti þar sem fram kom að hún hefði ákveðið að slíta stjórnarsamstarfi við ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar. Ástæða slitanna var sögð „alvarlegur trúnaðarbrestur innan ríkisstjórnarinnar“.

Í gær kom í ljós að dómsmálaráðherra hefði upplýst Bjarna Benediktsson forsætisráðherra um að faðir hans væri meðal meðmælenda fyrir uppreist æru dæmds barnaníðings. 

Sigríður sagði í Morgunútvarpinu í morgun að Björt framtíð hefði átt að gefa forsætisráðherra tækifæri til að tjá sig um málið og ræða þetta við samstarfsflokkana. „En þessi tilkynning, undir miðnætti í gær, af einhverjum netfundi stjórnar þessa flokks sýnir það auðvitað að þessum flokki var auðvitað aldrei nein alvara í því að axla ábyrgð hér á ríkismálunum í samstarfi við ríkisstjórn Íslands. Þetta er auðvitað háalvarlegt mál að mínu mati, að menn taki að sér að axla þessa ábyrgð en standi ekki meira undir henni en svona,“ sagði hún í Morgunútvarpinu.

Spurð frekar út í þá staðreynd að hún ræddi málið við forsætisráðherra í sumar, en ekki aðra ráðherra, sagði hún: „Ég hefði auðvitað alveg getað rætt það í trúnaði við aðra ráðherra en ég sá enga ástæðu til þess.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert